Meira um 2. flokks leikinn

Það er óhætt að segja að 2. flokkur hafi átt stórleik gegn Birninum á laugardaginn en þetta var einn af þessum leikjum þar sem allt gekk upp, vörnin, sóknin og markvarslan.

Leikurinn var auk þess mjög fjörugur frá upphafi til enda og leikmenn beggja liða sýndi mikið baráttuþrek, hraða og hörku. Það verður ekki af þeim tekið þessum drengjum að þeir gefa allt í þetta og fyrir vikið verða þessir leikir hin mesta skemmtun og alls ekki síðri en meistaraflokkur – jafnvel skemmtilegri ef eitthvað er.

Leikurinn byrjaði mjög hressilega og það var margt sem gladdi augað. Þó var aðeins eitt mark skoraði í lotunni en þar var á ferðinni Andri Már Mikaelsson eftir sendingar frá Orra Blöndal og Birki Árnasyni. Á 2. mínútu 2. lotu bætti SA svo við 2. markinu en að þessu sinni var það Steinar Grettisson sem skoraði og aftur var það Birkir Árnason sem áttu sendinguna. Birkir var atkvæða mikill í leiknum og var áberandi ferskur á ísnum og fór ófáar ferðirnar frá strönd til strandar og sendi fyrir markið eða tók skotið. Jafnframt var hann traustur í vörninni og var þar oft studdur af bróður sínum Sigga Árna en saman eru þeir oft nefndir “tvíburaturnarnir”.

Strákarnir fóru hreinlega á kostum í lotunni og bættu við þremur mörkum til viðbótar áður en kom að seinna leikhléi. 3. mark leiksins skoraði Steinar Grettis eftir sendingu frá Einari Valentine sem var mætti aftur á ísinn eftir tveggja vikna fjarveru vegna meiðsla. 4. markið átti svo 3. flokks leikmaðurinn Andri Sverrisson eftir sendingu frá Jóni Heiðari Sigmundssyni. 5. og síðasta mark leiksins skoraði svo Orri Blöndal eftir nett “rap around” en annars átti Orri stórleik og spilaði bæði sókn og vörn að þessu sinni.

Staðan var þá orðin 5 – 0 þegar 3. og síðasta lota hófst og ljóst í hvað stefndi. Lotan var fjörug líkt og hinar loturnar en aðeins eitt mark var skorað – Orri Blöndal setti pökkinn upp í skeytin frá bláu línunni án þess að Ingi í marki Bjarnarmanna kæmi nokkrum vörnum við. Lokastaðan 6 – 0 og auk þess tóku leikmenn SA 49 skot á mark á móti 14 Bjarnarmanna. Sæmundur Leifsson var traustur í markinu og varði þessi fáu skot sem á markið komu og uppskar “shut out” (það þarf að fara að þýða allt þetta slangur).

Það er engum blöðum um það að fletta að liðið er gott og SA þarf ekki að kvíða framtíðinni ef allir þessir leikmenn halda áfram. Ánægjulegt var t.d. að sjá hve vel 3. flokks leikmennirnir stóðu sig leiknum s.s. Árni Jónsson, Andri Sverris, Hilmar Leifsson og Hilmir Guðmundsson. Nú er bara að halda áfram og stefna að titli í þessum flokki sem á að vera raunhæfur möguleiki. Bæði Björninn og SR hafa einnig á að skipa vel mönnuðum liðum í þessum flokki enda hefur keppnin verið afar-jöfn í vetur.

Þrátt fyrir að lokatölurnar hafi verið 6 – 0 og að skothlutfallið gefi til kynna mikla yfirburði SA manna, þá er ekki hægt að segja að þessi yfirburðir hafi verið áberandi því gestirnir börðust vel til leiksloka en hlutirnir bara féllu ekki þeim megin að þessu sinni á meðan allt gekk upp hjá þeim rauðu.

Mörk og stoðsendingar

SA: Orri Blöndal 2/1, Birkir Árnason 0/3, Steinar Grettisson 2/0, Andri Már Mikaelsson 1/0, Andri Sverrisson 1/0, Jón Heiðar Sigmundsson 0/1, Einar Valentine 0/1.

Meðfylgjandi mynd er af Sigurði Árnasyni sem átti  góðan leik.  Myndina tók Margeir myndasmiður.