Minningarmót um Garðar Jónasson

Garðar Jónasson (1952-2007)
Garðar Jónasson (1952-2007)


Laugardaginn 9. mars koma saman sextíu hokkíkonur frá öllum þremur skautafélögunum – SA, Birninum og SR – og etja kappi í móti sem helgað er minningu Garðars heitins Jónassonar – Gæsa.

Nær allar sterkustu hokkíkonur landsins
Heita má að í þessum hópi séu nær allar af sterkustu hokkíkonum landsins, en þátttakendur eru allt frá því að vera nánast byrjendur í íþróttinni yfir í margreyndar landsliðskonur. Skipt hefur verið í fimm lið – einn markvörður og 11 útileikmenn í hverju liði – og inniheldur hvert lið blöndu af reyndum og óreyndum leikmönnum. Skipt er inn á eftir tímatöku þannig að leikmenn fá allir mótherja við hæfi. Þetta er vonandi ávísun á jafna og spennandi leiki.

Liðin leika einfalda umferð í einum riðli, allir við alla. Leikirnir verða 2x20 mínútur með rúllandi tíma og er skipt á 1,5 mínútna fresti með flauti. Tvö stig eru fyrir sigur, eitt fyrir jafntefli. Verði lið jöfn að stigum raðast þau eftir úrslitum í innbyrðis viðureignum og síðan markatölu.

Fyrsti leikur hefst kl. 8.10 á laugardagsmorguninn. Um ellefuleytið verður gert hlé á keppninni og aftur hafist handa kl. 16.15. Áætlað er að síðasta leik ljúki um kl. 22.30 á laugardagskvöld, en að því búnu verður lokahóf mótsins í Pakkhúsinu.

Þetta þýðir að æfingar yngri flokka falla niður á laugardagsmorguninn og almenningstími verður jafnframt styttri en venjulega, opið verður kl. 13-16, ekki 13-17 eins og á hefðbundnum laugardegi.

Ástæða er til að hvetja hokkíáhugafólk til að leggja leið sína í Skautahöllina á Akureyri á laugardag og skemmta sér yfir góðum tilþrifum fremstu hokkíkvenna landsins.

Í pdf-skjali hér má sjá skipan liðanna og leikjadagskrána.

Samgróinn sögu Skautafélagsins
Eins og áður sagði er mótið helgað minningu Garðars Jónassonar, sem stundaði og starfaði við hokkí innan Skautafélags Akureyrar við góðan orðstír í áratugi. Garðar var fæddur á Akureyri 6. desember 1952. Hann lést langt fyrir aldur fram eftir skammvinn veikindi þann 16. Júlí 2007. Hann bjó nær alla sína ævi í Innbænum og því nátengdur sögu Skautafélagsins. Garðar var lærður húsasmiður og starfaði í þeirri grein til dánardags.

Garðar – oftast kallaður Gæsi eða Gæi af vinum hans – er þeim sem starfað hafa innan Skautafélags Akureyrar vel kunnur fyrir langt og mikið starf hans í þágu félagsins. Hann varð alls sjö sinnum Íslandsmeistari í íshokkí, fyrst árin 1980 og 1982 og síðan fimm ár í röð 1991-1996, en þá hætti hann að spila með meistaraflokki og snéri sér að „Old boys“ og var virkur í þeim hópi fram undir það síðasta.

Þá fraus Pollurinn
Fréttaritari hafði samband við Jón S. Hansen, vin og hokkífélaga Gæsa til margra ára, til að rifja upp sitt lítið af hverju um starf Gæsa innan Skautafélagsins. Þeir Jón og Gæsi léku saman hokkí sem krakkar inni á Krókeyri á sjöunda áratug liðinnar aldar. Þá var gert skautasvell á Krókeyrinni austan við Gróðrarstöðina. Jón segir þá hafa verið þar mest um og upp úr 1965, en skautasvellið á Krókeyrinni var formlega vígt á Vetrarhátíðinni 1970. Það var þó víðar skautað eins og Jón rifjar upp: „Pollurinn fraus í þá daga og við skautuðum oft yfir í Vaðlaheiði, síðast líklega nítján hundruð sjötíu og eitthvað,“ segir Jón.

Reykjavíkurferðirnar
Gæsi var virkur í hokkíinu um langt skeið, bæði sem leikmaður og svo seinna sem starfsmaður á leikjum og í öðru starfi fyrir Skautafélagið. „Á þeim tíma voru bæjarkeppnir, ekki Íslandsmót,“ segir Jón. „Við fórum í nokkrar Reykjavíkurferðir sem þóttu frægar mjög, kíktum í Hollywood og fleiri staði, gistum yfirleitt á Hótel Esju. Þá var spilað á Melavellinum. Svenni bakari var svo með veislu á eftir.“ Heyra má á Jóni að þetta voru góðir tímar.

Líklega gera fæst þeirra sem iðka íshokkí í dag sér grein fyrir hve frábrugðið það var að æfa og spila áður en vélfryst svell kom til sögunnar. Jón segir Gæsa hafa verið mjög drífandi í starfinu og verið duglegan að vinna fyrir félagið og í þágu íþróttarinnar. „Það þurfti alltaf að moka snjó og skafa, það var mikil vinna að komast á skauta þá, síðan var sprautað yfir með brunaslöngum,“ segir Jón. Handtökin voru mörg og vinnan erfið – ekki bara bið í 10 mínútur á meðan maðurinn á Zamboni-heflinum rennir yfir svellið.

Sigurgeir Haraldsson kynntist Gæsa á unglingsaldri, en Gæsi var tveimur árum eldri en Sigurgeir. Sigurgeir segir um Gæsa að hann hafi verið einn af þeim sem falla undir "sama sem" merkið þegar rætt er um íshokkí og Skautafélag Akureyrar. "Það var ekki spurning hvort það átti að spila leik, dæma leik eða vinna fyrir félagið, alltaf var Garðar mættur til að aðstoða. Svo má ekki gleyma öllum hokkí ferðunum til Reykjavíkur, þar var Garðar hrókur alls fagnaðar og ég er viss um að ef það er einhver ferð sem er gleymd þá hefur Garðar ekki verið með!" segir Sigurgeir. 

Frægur fyrir Kók og Prins
„Gæsi átti frægan bíl sem kallaður var „Skóhlífin“. Þetta var Volkswagen bjalla með vinstri handar stýri. Það var mikið rúntað á henni,“ segir Jón. „Hann var líklega frægastur fyrir að drekka Kók og borða Prins Póló með – sjálfsagt landsfrægur fyrir það. Hann drakk aldrei annað en kók, og svo mjólk.“

Sigurgeir rifjar líka upp kynni sín af Skóhlífinni sem Jón nefndi. "Þær voru margar ferðirnar sem voru farnar fram á flæðurnar við Brunná til að leita að nothæfu svelli og einnig á þær tjarnir sem var vitað um í kringum Akureyri. Garðar var fljótur að taka okkur strákana með í kók og prins í Nesti, jafnvel bæði fyrir og eftir æfingar, en Garðar var tveimur árum eldri en við og kominn með bílpróf  á undan okkur. Hann átti forláta Volkswagen bjöllu sem við tróðumst í og í hokkígallanum. Á þeim tíma klæddum við okkur í gallann heima."

Nokkrar þeirra sem spila munu hokkí í Skautahöllinni á Akureyri hafa reyndar spilað gegn Gæsa – en meðfylgjandi myndir eru úr leik Gulldrengjanna (Oldboys SA) gegn kvennalandsliðinu 23. mars 2005.

= = =

Á meðal minningargreina sem birtust um Gæsa í Morgunblaðinu var kveðja frá Skautafélagi Akureyrar, svohljóðandi:

Kveðja frá Skautafélagi Akureyrar

Garðar fékk snemma áhuga á skautaíþróttinni og spilaði íshokkí frá unga aldri. Hann keppti með Skautafélagi Akureyrar í hinum árlegu bæjarkeppnum og svo síðar meir með meistaraflokki félagsins í Íslandsmótinu til árisins 1996. Hann varð alls sjö sinnum Íslandsmeistari í íshokkí, fyrst árin 1980 og 1982 og síðan fimm ár í röð frá 1991-1996. Eftir að hann hætti að keppa með meistaraflokki spilaði hann með "old boys"-liði SA fram til síðasta vors. Hann var alla tíð virkur félagsmaður í Skautafélagi Akureyrar og vann mikið fyrir félagið við uppbyggingu þess og viðhald félagsaðstöðu Skautafélagsins. Hann kærði sig aldrei um að taka sæti í stjórnum en vann þeim mun meira við allt verklegt og var alltaf boðinn og búinn að leggja hönd á plóg þegar Skautafélagið var annars vegar. Eftir að hann hætti að keppa sjálfur vann hann einnig mikið við framkvæmd leikja og móta og var m.a. línudómari og markadómari á leikjum meistaraflokks, nú síðast á nýliðnu tímabili.

Garðar var vinalegur maður, glettinn og glaðlyndur og hans verður sárt saknað. Hann var einn af þessum "gömlu" í félaginu, einn af þeim sem þekkti sögu félagsins vel og hafði kynnst því að iðka skautaíþróttina við hinar fjölbreytilegustu aðstæður. Vinnustundir hans í þágu þess eru óteljandi og vinnuframlagið ómetanlegt.

Hann var vinur okkar og félagi, Innbæingur og heiðursmaður. Móður hans sem og öðrum ættingjum og vinum, vottum við okkar dýpstu samúð.

Það má segja að Garðar sé einn af þeim sem falla undir “sama sem” merkið þegar rætt er um íshokkí og Skautafélag Akureyrar. Það var ekki spurning hvort það átti að spila leik, dæma leik eða vinna fyrir félagið, alltaf var Garðar mættur til að aðstoða. Svo má ekki gleyma öllum hokkí ferðunum til Reykjavíkur, þar var Garðar hrókur alls fagnaðar og ég er viss um að ef það er einhver ferð sem er gleymd þá hefur Garðar ekki verið með! Garðar byrjaði ungur á skautum í innbænum og átti skautaíþróttin hug hans alla tíð. Þær voru margar ferðirnar sem voru farnar fram á flæðurnar við Brunná til að leita að nothæfu svelli og einnig á þær tjarnir sem var vitað um í kringum Akureyri. Garðar var fljótur að taka okkur strákana með í kók og prins í Nesti, jafnvel bæði fyrir og eftir æfingar, en Garðar var tveimur árum eldri en við og kominn með bílpróf  á undan okkur. Hann átti forláta Volkswagen bjöllu sem við tróðumst í og í hokkígallanum. Á þeim tíma klæddum við okkur í gallann heima. (þegar ég segi við, þá á ég við mig og nokkra aðra á svipuðum aldri sem hafa haldið hópinn fram til þessa dags og spilað íshokkí saman.)  Garðar hefur unnið fjölmarga Íslandsmeistaratitla í íshokkí eða samtals 7 og var að sjálfsögðu í liðinu  þegar við unnum fyrsta Íslandsmeistaratitilinn 1980. Alltaf var Garðar í peysu númer 7 og spilaði í vörn, en í seinni tíð með Old Boys  kölluðum við hans varnarspil, framliggjandi vörn! Þegar Garðar hætti í meistaraflokknum tók Old Boys við og  mátti treysta á Garðar þar eins og annarsstaðar. Síðustu ár hefur Garðar aðstoðað við íshokkíleiki utan vallar og tekið að sér þau störf sem hann hefur verið beðinn um.