Karfan er tóm.
Um síðastliðna helgi fóru sextán SA stelpur til Reykjavíkur og tóku þátt í U16 stúlknamóti í Egilshöll ásamt stelpum frá Fjölni og SR. Íhokkísambandið styrkir þetta mót sem haldið var í annað sinn þetta árið en um 45 stelpur tóku þátt í mótinu. Tilgangurinn er að styðja við og efla uppbyggingu kvennahokkísins, efla kynni milli liðanna, læra og hafa gaman.
Á móti sem þessu lána liðin liðsmenn sín á milli til að jafna getumun og styrkja þannig lið sem er t.d. með færri leikmenn, fleiri nýliða o.s.frv. og gleðin fyrir leiknum er höfð í fyrirrúmi. Á mótinu spiluðu liðin tvo leiki innbyrðis við hvert annað en auk þess voru útileikir og fræðsla. Þjálfarar sáu um leiki en fræðslan kom annarsvegar frá Sigrúnu Haraldsdóttur hjá Happy hips sem kenndi þeim bandvefslosun og hreyfiteygjur með litlum boltum. Hins vegar frá Hreiðari Haraldssyni íþróttasálfræðiráðgjafa sem rekur Haus hugarþjálfun og fræddi stelpurnar um hugarfarslega þætti er snúa að íþróttaiðkun, allt frá því að æfingar eru leikur á yngri árum, að þrautseigju þegar verður erfitt og afreksþjálfun. Þetta var skemmtileg íshokkíhelgi og er okkur strax farið að hlakka til næsta U16 stelpnamóts. Hér fylgir slóð á albúm með myndum frá helginni sem Elísabet Ásgríms tók en Rósa Guðjónsdóttir tók liðsmyndirnar af SA.