Nú skiptir stuðningur áhorfenda máli!

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (16.10.2012)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (16.10.2012)


Í dag verða tveir hokkíleikir í Skautahöllinni á Akureyri. Víkingar og Björninn mætast í mfl. karla kl. 16.30 og síðan Ynjur og Björninn strax að þeim leik loknum.

Í meistaraflokki karla er ljóst að SA og Björninn munu eigast við í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn, en enn er barist um deildarmeistaratitilinn og þar með heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Björninn er nú með 34 stig og á þrjá leiki eftir, en Víkingar hafa 30 og eiga fjóra leiki eftir.

Víkingar og Björninn mætast í dag, aftur á þriðjudagskvöld í Skautahöllinni á Akureyri og svo í Egilshöllinni í byrjun mars. Auk þess eiga Víkingar einnig eftir að heimsækja SR-inga einu sinni.

Óhætt er að lofa hörkuleikjum og góðri skemmtun í dag og eru Akureyringar hvattir til að mæta í Skautahöllina og hvetja sitt lið. Toppbaráttan í deildarkeppninni hjá körlunum er í algleymingi, nóg af stigum í boði og nú skiptir stuðningur áhorfenda máli.

Leikur Víkinga og Bjarnarins hefst kl. 16.30 og því verður almenningstími styttri en venjulega, opið verður kl. 13-16. Strax að loknum leik Víkinga og Bjarnarins mætast Ynjur og Björninn í mfl. kvenna. Þar er reyndar engin spenna um sæti í deildinni, en Ynjur munu þó örugglega gera sitt til að skemmta áhorfendum.

Semsagt: Hokkíveisla framundan.