Karfan er tóm.
Þrjú stig skilja að SA og Björninn í deildarkeppni Íslandsmótsins í íshokkí kvenna. Markatalan er Birninum í hag jafnvel þótt SA tækist að jafna stigatöluna með sigri í lokaleik liðsins í deildinni.
Til að eiga tölfræðilegan möguleika á að komast upp að hlið Bjarnarins í deildarkeppninni varð SA að vinna leikinn gegn SR í kvöld. SR skartaði reyndar þremur öflugum leikmönnum Bjarnarins skv. leikmannalistanum, en það dugði þó ekki til að standa í SA að neinu marki því það var SA sem skoraði mörkin í fyrsta leikhluta. Ragnhildur Kjartansdóttir opnaði markareikning SA og Diljá Sif Björgvinsdóttir bætti við öðru marki.
Kristín Björg Jónsdóttir náði þriggja marka forystu fyrir SA með marki í upphafi annars leikhluta. SR minnkaði muninn í 1-3 með eina marki sínu í leiknum, en þá fylgdu tvö mörk frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur og forystan orðin fjögur mörk eftir annan leikhluta.
Diljá Sif bætti svo við sjötta marki SA í þriðja leikhlutanum og var það eina markið í þeim leikhluta. Þar bar þó helst til tíðinda að leikmenn SR fengu refsingar í röðum, samtals 33 mínútur í lokaleikhlutanum. Úrslitin: SR - SA 1-6 (0-2, 1-3, 0-1).
Mörk/stoðsendingar
SR
Vera Ólafsdóttir 1/0
Refsimínútur: 37
Varin skot: 36
SA
Silvía Rán Björgvinsdóttir 2/2
Diljá Sif Björgvinsdóttir 2/0
Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0
Kristín Björg Jónsdóttir 1/0
Lísa Ólafsdóttir 0/1
Silja Rún Gunnlaugsdóttir 0/1
Refsimínútur: 2
Varin skot: 25
Eftir sigurinn í kvöld er SA með 21 stig, þremur stigum á eftir Birninum, en bæði lið hafa leikið 10 leiki. Bæði lið eiga eftir leik gegn SR og að auki innbyrðisleik í Skautahöllinni á Akureyri. SA fær SR í heimsókn laugardagskvöldið 22. febrúar, en lokaleikur SA í deildarkeppninni verður gegn Birninum laugardaginn 1. mars.
SA getur því náð Birninum að stigum ef bæði liðin vinna SR (sem er þó auðvitað ekki gefið), og ef SA vinnur Björninn. En væntanlega er Björninn þá ekki unninn því þá væru liðin með jafnmarga sigra í innbyrðis viðureignum liðanna, en markatala Bjarnarins er mun betri.