Rockstar Curling - raunveruleikaþáttur með Springsteen og Bon Jovi?

Magic - forsíðan á nýjasta diski Springsteen, myndin er fengin af www.springsteen.net
Magic - forsíðan á nýjasta diski Springsteen, myndin er fengin af www.springsteen.net
Frægir tónlistarmenn grípa í kústinn sér til gamans. Sögusagnir um krullu-raunveruleikaþátt í Bandaríkjunum

Krullan rokkar! Þessu hefur áður verið haldið fram hér á krulluvefnum, meðal annars eftir skemmtilegt myndband með sænskri rokkhljómsveit og sigursælum sænskum krullukonum. En nú berast þær fregir að westan að ekki ófrægari menn en sjálfur Bossinn, Bruce Springsteen, og Jon Bon Jovi grípi öðru hverju í kúst og stein sér til skemmtunar. Heimildamenn segja að fleiri úr skemmtanabransanum eigi það til að leigja sér svell og leika sér í krullu.

Þetta er nefnt í fréttum vestanhafs í tengslum við orðróm um að NBC undirbúi nú að framleiða tíu þátta raunveruleikaseríu þar sem krulla yrði í aðalhlutverki – Rockstar Curling! NBC hefur raunar staðfest að þessi möguleiki sé fyrir hendi og er nú unnið að samningum þess efnis að fá Bruce og/eða Bon Jovi með í leikinn, væntanlega sem þáttastjórnendur.

Hugmyndin að þættinum sjálfum gengur út á að auka áhorf og áhuga á krullu í Bandaríkjunum. Bent er á í fréttaskeytum að slíkur þáttur þætti ekkert sérlega óvenjulegur norðan landamæranna, í Kanada, þar sem stærstu krulluviðburðirnir draga yfir milljón manns að sjónvarpsskjánum. Hins vegar sé krulla varla nefnd í bandarísku sjónvarpi nema þegar skemmtikraftar gera grín að henni. Krullan hefur hins vegar komið á óvart sem sjónvarpsefni í Bandaríkjunum á tvennum síðastliðnum Ólympíuleikum. Þó svo krullan dragi sjaldan fleiri en um 800.000 manns að sjónvarpsskjánum er frá því sagt í fréttinni á vef kanadíska fréttamiðilsins Toronto‘s Star – http://www.thestar.com/Sports/article/302386 – í dag að fyrir hafi komið að krulluútsending hafi dregið að sér fleiri áhorfendur en leikur í úrslitum NHL-deildarinnar á sama tíma daginn eftir.

Vonast er til að raunveruleikaþáttur eins og um er rætt muni vekja athygli á krullunni um öll Bandaríkin. Hugmyndin er að hópur þjálfara muni velja tvö lið, fimm karlmenn og fimm konur, átján ára og eldri og að þessi hópur muni læra og æfa krullu í sex mánuði í Lake Placid í New York-ríki. Atvinnuþjálfarar myndu þjálfa þetta fólk í átta tíma á dag og síðan myndu liðin reyna fyrir sér í undankeppni fyrir Ólympíuforkeppni í febrúar 2009 þar sem keppt er um hvaða lið færi sem fulltrúi Bandaríkjanna á Ólympíuleikana í Vancouver 2010. Liðin þyrftu að sjálfsögðu að vinna fyrir sæti í þeirri keppni eins og öll önnur lið.

Þið munið eftir Knattspyrnufélaginu Nörd. Er ekki krullan næst?