Rússlandsfarar komnir heim

Íslenska og kanadíska liðið. Mynd: Birgir Reyniss.
Íslenska og kanadíska liðið. Mynd: Birgir Reyniss.


Rússlandsfararnir eru komnir heim reynslunni ríkari og með margar góðar minningar. Einn leikmaður SA, Sveinn Verneri Sveinsson, var valinn maður leiksins í einum leiknum.

Eins og við sögðum frá í liðinni viku fór hópur stráka ásamt foreldrum og þjálfurum til St. Pétursborgar í Rússlandi til keppni á Arctic Cup hokkímótinu. Hópurinn samanstóð af 18 strákum á aldrinum 12-13 ára, en ferðin er á vegum Skautafélagsins Slappskot. Strákarnir koma úr öllum þremur skautafélögunum hér á landi, SA, Birninum og SR. Tvisvar voru SA-strákar valdir maður leiksins í mótinu, en það voru þeir Sveinn Verneri Sveinsson og Sigurður Freyr Þorsteinsson. Aðalþjálfari liðsins var Sarah Smiley og með henni þeir Sergei Zak og Vilhelm Már Bjarnason.

Við heyrðum frá Söruh Smiley eftir að hópurinn kom heim. "Foreldrar og strákarnir sem tóku þátt í mótinu koma heim frá Rússlandi með margar góðar minningar. Ekki aðeins fengum við tækifæri til að keppa í frábæru alþjóðlegu hokkímóti, heldur var margt gert þess utan," segir Sarah.

Farið var í skoðunarferð um St. Pétursborg, þar sem m.a. voru skoðaðar gamlar kirkjur, frábær arkitektúr og fræðst um sögu borgarinnar. Hópurinn fór á hokkíleik í KHL-deildinni þar sem áttust við St. Pétursborg og Tornado. Ferðalagið á leikinn var upplifun út af fyrir sig því hópurinn tók neðanjarðarlestina á mesta annatíma á föstudagskvöldi. Strákarnir skemmtu sér svo eitt kvöldið í risastórum innanhúss vatnagarði á hótelinu og ekki má gleyma glæsilegum opnunar- og lokahátíðum mótsins.

Úrslit leikja:
St. Pétursborg - Ísland 16-0
Kanada - Ísland 4-2
Moskva - Ísland 11-0

Sarah segir strákana hafa lært mikið og hafi hver leikhluti í hverjum einasta leik verið þeim góð lexía. "Þjálfararnir eru mjög ánægðir með það hvernig þeir lögðu sig fram. Við fengum líka tækifæri til að spila vináttuleik við lið frænda Sergeis, Lokomotiv, og þar unnu strákarnir sinn fyrsta sigur í miklum baráttu leik, 3-2."

Hér eru nokkrar myndir sem Birgir Örn Reynisson tók í ferðinni.