SA leikmenn vinsælir í Svíþjóð

Mikið er um að vera hjá SA leikmönnunum okkar erlendis en ekkert lát virðist vera á vinsældum leikmanna Skautafélags Akureyrar á meðal sænskra íshokkíliða því 8 leikmenn frá Skautafélagi Akureyrar spila um þessar mundir með sænskum íshokkíliðum.

Í sænsku 1. deildinni spila 4 leikmenn en Silvía Rán Björgvinsdóttir sem tók slaginn með Gautaborg í úrvalsdeildinni fyrir áramót færði sig nýverið yfir til síns gamla liðs í Södertälje SK í sænsku 1. deildinni á lánssamning þar sem hún hittir fyrir Sögu Blöndal Sigurðardóttur. Södertälje er búið að vinna flest alla sína leiki í vetur og leggur nú allt kapp á að komast upp í úrvalsdeildina en liðið er búið að tryggja sér sæti í umspilinu. Silvía er búin að spila 4 leiki með Södertalje og gert í þeim 5 stig en Saga er fyrsti varnarmaður á blað hjá liðinu og spilar stórt hlutverk í báðum endum vallarins. Sunna Björgvinsdóttir og Teresa Snorradóttir eru einnig að gera vel með Haninge Anchors HC sem einnig er í Stokkhólmi og í sömu deild og eru líka í toppbaráttunni. Sunna er á meðal stigahæstu leikmanna Haninge og er komin með 17 stig í 21 leik en þær báðar hafa verið á miklu flugi með liði sínu upp á síðkastið og tryggðu sér sæti umspilinu um helgina og fylgja því Södertalje í baráttuna um besta lið 1. deildarinnar og keppni um sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Íslendinga liðin mætust einmitt síðasta fimmtudag en þar hafði Haninge betur í vítakeppni eins og glöggt má lesa úr brosi leikmannanna við myntatöku eftir leik.

 

Í U18 liði Göta/Traneberg hefur Uni Steinn Sigurðsson staðið sig frábærlega og raðar inn mörkunum en Uni hefur sett þrennu í síðustu tveimur leikjum sínum með liðinu og er nú komin með 23 mörk í 21 leik og er markahæsti leikmaður liðsins. Markvörðurinn Helgi Ívarsson fór til reynslu hjá liðinu fyrir jól og er nú komin á fast með liðinu og spilaði sína fyrstu leiki um helgina og hélt markinu hreinu í seinni leiknum svo byrjunin hjá honum lofar góðu.

Nokkuð norðar í Svíþjóð spila svo þeir Alex Máni Sveinsson og Arnar Kristjánsson í U18 Sollefteå HK en liðinu hefur gengið vel og sitja nú í efsta sæti riðilsins. Alex Máni er á meðal stigahæstu leikmanna liðsins og Arnar hefur einnig staðið sig vel og átt nokkrar snuddur úr vörninni.