Karfan er tóm.
SA Víkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í Hertz-deild karla á gærkvöld þegar liðið lagði Björninn/Fjölni að velli 5-3. SA Víkingar tryggðu sér þar með heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem hefst 31. mars og mæta þar Birninum/Fjölni. SA Víkingar hafa unnið 12 af 13 leikjum í Hertz-deildinni í vetur og eru því afar vel að titlinum komnir.
Leikurinn í gærkvöld hófst afar vel fyrir útiliðið því þeir höfðu náð 2-0 forystu þegar aðeins 6 mínútur höfðu lifað leiks. SA Víkingar voru þó ekki af baki dottnir en Jói Leifs minnkaði muninn um miðja fyrstu lotuna með glæsilegu einstaklingsframtaki eins og hann gerir best og hefur gert margsinnið í vetur þegar liðið hefur á marki þurft að halda. SA Víkingar héldu áfram að sækja að marki Bjarnarins í kjölfarið sem skilaði jöfnunarmarki. Einar Grant tróð þá pekkinum í markið af harðfylgi eftir góðan undirbúning Bjarts Gunnarssonar og Kristjáns Árnasonar. Björninn náði aftur forystu í leiknum áður en lotan kláraðist með marki Kristján Kristinssonar sem þræddi sig í gegnum alla vörn Víkinga og hamraði pökkinn í markið og staðan 2-3 fyrir aðra lotuna. Víkingar komu ákafir inn í aðra lotuna og jöfnuðu metin um miðja lotuna þegar varnartröllið Ingvar Þór Jónsson fylgdi eftir sókn Víkinga alvega upp að marklínu Bjarnarins og batt enda hnútinn á góðan undirbúning Hafþórs Andra Sigrúnarsonar og Andra Mikaelssonar. SA Víkingar voru mun sterkari aðilinn í annarri lotunni en Björninn fékk þó nokkur mjög hættuleg færi en Jakob var sterkur milli stanganna hjá Víkingum en staðan var jöfn, 3-3, fyrir síðustu lotuna. SA Víkingar höfðu svo tögl og haldir í síðustu lotunni og augljóst að liðið ætlaði að tryggja sér titilinn á heimavelli sínum en þung sókn skilaði marki þegar um 12 mínútur lifðu leiks þegar Sigurður Þorsteinsson þrumaði pekkinum að marki sem skoppaði yfir markvörð Bjarnarins. Það var svo viðeigandi að Andri Mikaelsson fyrirliði tryggði sigur Víkinga með glæsilegu marki í lok leiksins og SA Víkingar fögnuðu því 5-3 sigri og deildarmeistaratitlinum á heimavelli.