Karfan er tóm.
Fyrsti leikur SA Víkinga í Hertz-deildinni lauk nú fyrir skömmu þar sem Víkingar unnu 4-1 sigur á SR. Leikurinn var markalaus alveg fram í 3. lotu en þá komu mörkin á færibandi. Einar Grant skoraði tvö mörk í leiknum í kvöld en Jakob Jóhannesson markvörður Víkinga var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður vallarins.
Það voru SR-ingar sem byrjuðu leikinn betur í kvöld og náðu að setja pressu á lið Víkinga fyrstu 5 mínútur leiksins. Jakob Jóhannesson í marki Víkinga stóð vaktina í kvöld og var gríðarlega öruggur í sínum aðgerðum og endaði þær sóknir SR sem náðu á markið. SA Víkingar komust þó fljótlega inn í leikinn og skiptust liðin á að halda pekkinum en lítið var um hættuleg marktækifæri í fyrstu lotunni. Leikurinn spilaðist ekki ósvipað í annarri lotunni þar sem liðin skiptust á að halda pekkinum án þess að ná að skapa sér þeim mun hættulegri færi en í tvö skipti náðu leikmenn SR að komast einir í gegn en Jakob var áfram sem klettur í marki Víkinga. Í þriðju lotunni komst Styrmir Maack aftur einn í gegnum vörn Víkinga og þá náði hann að setja pökkinn fram hjá Jakobi með góðu skoti og kom SR yfir í leiknum. SA Víkingar jöfnuðu hinsvegar leikinn aðeins mínútu síðar með marki frá Einari Grant. Um miðja þriðju lotuna kom Kristján Árnason svo Víkingum yfir í leiknum með marki af stuttu færi. Víkingar héldu áfram að þjarma að marki SR og Einar Grant skoraði þá þriðja mark Víkinga með hnittmiðuðu skoti upp á markvínkilinn áður en Heiðar Krisveigarsson gulltryggði sigur Víkinga undir lok lotunnar og SA Víkingar fóru með sigur af hólmi í leiknum.
SA Víkingar byrja því leiktíðina af krafti og eru nú jafnir Birninum/Fjölni með 3 stig en SR er án stiga. Næsti leikur Víkinga er þriðjudaginn 8. október og þá aftur á heimavelli gegn SR.