Samherjastyrkur veittur í fjórða sinn

Styrkþegar og styrkveitendur ásamt forseta Íslands
Styrkþegar og styrkveitendur ásamt forseta Íslands

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, var viðstaddur afhendinguna og flutti ræðu. Flestir styrkirnir eru gagngert veittir til að efla barna- og unglingastarf í íþrótta- og æskulýðsfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Þetta er fjórða árið í röð sem Samherji afhendir slíka styrki.

Við hjá Skautafélagi Akureyrar hlutum styrk upp á 3,2 milljónir og munum sem fyrr ráðstafa þeirri fjárhæð til lækkunar á æfingagjöldum sem og ferðakostnaði iðkenda okkar.  Styrkurinn var tvískiptur, annars vegar var um að ræða kr. 2,5 milljónir eyrnamerktar iðkendum 16 ára og yngri, og hins vegar var um að ræða kr. 700.000.- sem ætlaðar eru til að lækka ferðakostnað meistaraflokka félagsins.  

Þetta eru án efa mestu styrkir sem fyrirtæki veitir til íþróttastarfsemi hér á landi og orð fá því vart lýst hve mikils virði þetta er fyrir íþróttafélag eins og Skautafélag Akureyrar.   Á tímum sem allt er að hækka og óhjákvæmilega æfingagjöld þar með talin, þá gerir Samherja styrkurinn það að verkum að  verulega dregur úr áhrifum þessara hækkana á starfsemi íþróttafélaganna og með þessum hætti skilar þessi styrkur sér beint til iðkendana og í raun foreldra þeirra sem standa þurfa straum af kostnaði við íþróttaiðkun barna sinna. Við í Skautafélaginu þökkum kærlega fyrir okkur og við hugsum hlýlega til okkar velgjörðafólks.