Karfan er tóm.
Sarah Smiley og Ingvar Þór Jónsson hafa verið valin íshokkíkona og íshokkíkarl SA fyrir árið 2020.
Sarah er 38 ára sóknarmaður í kvennaliði SA. Sarah Smiley átti frábært tímabil með kvennaliði SA sem unnu bæði deildar- og Íslandsmeistaratitilinn á síðasta tímabili. Sarah var stigahæsti leikmaður deildarkeppninnar og var markahæsti leikmaður úrslitakeppninnar. Sarah lék einnig með kvennalandsliði Íslands sem náði silfurverðlaunum á Heimsmeistaramótinu sem haldi var á Akureyri í febrúar.
Sarah Smiley er einnig frábær fyrirmynd og hefur átt stóran þátt í þeirri miklu velgengni sem kvennaíshokkí hefur átt að fagna hjá Skautafélagi Akureyrar síðastliðin ár.
Ingvar er 39 ára gamall íshokkíleikmaður sem hefur verið einn af máttarstólpum Skautafélags Akureyrar og Íslenska landsliðsins um árabil. Ingvar spilað stórt hlutverk í liði Víkinga sem urðu deildarmeistarar á árinu. Ingvar hefur verið fyrirliði landsliðs Íslands í 18 ár og er eini íslenski íshokkíspilarinn sem hefur náð að spila 100 landsleiki fyrir Íslands hönd. Ingvar er þar að auki frábær fyrirmynd í alla staði.
Skautafélag Akureyrar er stolt af að hafa þau Söruh og Ingvar í sínum röðum og óskar þeim innilega til hamingju með titlanna.