Seinni keppnisdegi haustmóts ÍSS lokið.

Þá er haustmóti ÍSS 2016 lokið og má með sanni segja að stúlkurnar okkar hafi staðið sig vonum framar á mótinu, ekki síst ef horfti er til þess að þær höfðu flestar aðeins skautað í viku fyrir mótið, frá því að æfingarbúðaferðum lauk í sumar.

Keppni hófst í morgun með keppni í 8 og 10 ára og yngri A. Við áttum einn keppanda í 10 A, hana Freydísi Jónu. Hún er á sínu fyrsta móti í 10 A og gerði sér lítið fyrir og vann flokkinn með 25.60 stigum.

Þá var komið að keppni i 12 ára og yngri A. Þar áttum við einn keppanda hana Ísold Fönn. Ísold er einnig á sínu fyrsta móti í flokknum. Ísold skautaði til sigurs með miklum yfirburðum með 40.19 stigum.

Því næst var komið að stúlkunum í stúlknaflokki A að skauta frjálsa prógrammið. Þær voru flestar með ný prógrömm og því spenna að sjá hvernig þetta færi. Þetta fór þannig að:

Marta María sigraði flokkinn með 20.80 í tæknieinkunn, 45.10 stig fyrir frjálsa og 72.17 stig samanlagt.

Aldís Kara varð í öðru sæti með 20.77 stig í tæknieinkunn, 43.90 stig fyrir frjálsa og 70.57 stig samanlagt.

Ásdís Arna varð í þriðja sæti með 20.47 stig í tæknieinkunn, 43.54 stig fyrir frjálsa og 68.70 stig samanlagt.

Rebekka Rós skautaði sig upp um tvö sæti og varð í 4.sæti með 20.97 stig í tæknieinkunn, 43.10 stig fyrir frjálsa og 64.63 stig samanlagt.

Að síðustu var svo komið að keppni í unglingaflokki A, þar sem Emilía Rós stóð efst að loknum fyrri keppnisdeginum. Hún skilaði fallegu prógrammi sem tryggði henni sigur í flokknum með 28.37 stig í tæknieinkunn, 60.11 fyrir frjálsa og 95.18 stig samanlagt.

Elísabet Ingibjörg (Gugga) hafnaði í 6. sæti með 14.88 stig í tæknieinkunn,  43.09 stig fyrir frjálsa og 65.89 stig samanlagt.

 

Við óskum stelpunum innilega til hamingju með árangurinn og það verður gaman að fylgjast með framgangi þeirra í vetur.