Sextánda Brynjumótinu lokið

Mynd: Margrét Aðalgeirsdóttir
Mynd: Margrét Aðalgeirsdóttir


Sextánda Brynjumótinu lauk í Skautahöllinni á Akureyri upp úr hádegi í dag. Um 150 krakkar frá þremur skautafélögum tóku þátt.

Skautafélag Akureyrar átti flesta keppendur á Brynjumótinu, eða um helming. Af um 150 krökkum voru 70-80 frá SA og 30-40 frá Birninum og SR. Mótið stóð frá því snemma á laugardagsmorgni og fram á kvöldmatartíma og svo aftur frá því í býtið í morgun og fram að hádegi, en mótinu lauk með verðlaunaafhendingu og pítsaveislu í boði Brynju upp úr hádeginu í dag.

Eitt af liðum SA í 7. flokki var eingöngu skipað stelpum og er þetta í fyrsta skipti sem næst í heilt stelpulið í þeim aldursflokki. Það er því óhætt að segja að íþróttin sé á réttri leið hér á Akureyri, stelpunum fjölgar og hinn sterki meistaraflokkur kvenna þarf því ekki að kvíða því að eldast - það eru nýjar stelpur á leiðinni upp.

Meðfylgjandi myndir tók Margrét Aðalgeirsdóttir. Smellið á myndina til að fara inn í albúm og sjá fleiri myndir, m.a. hópmynd af öllum keppendum SA. Fleiri myndir (HI) má einnig sjá í myndaalbúmi hér.

Bestu þakkir til allra sem komu að framkvæmd mótsins, bæði foreldra, dómara, þjálfara - og ekki síst krakkanna sjálfra. Þá færir Skautafélag Akureyrar heiðurshjónunum í Brynju - Fríði Leósdóttur og Júlíusi Arasyni - bestu þakkir fyrir frábæran stuðning við félagið.