Karfan er tóm.
Lið SA gerði sér lítið fyrir og sigraði deildarmeistara Bjarnarins í Egilshöllinni í fysta leik úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í íshokkí í kvöld. Ragnhildur Kjartansdóttir og Sarah Smiley skoruðu mörk SA. Liðin mætast aftur sunnudaginn 9. mars kl. 19.00 í Skautahöllinni á Akureyri.
Hvorugu liðinu tókst að skora í fyrsta leikhluta, en SA átti mun fleiri skot á mark, 11 skot á móti tveimur frá gestgjöfunum.
Eftir rúmlega fimm mínútna leik í öðrum leikhluta kom Mariana Birgisdóttir Birninum í 1-0. Ekki löngu síðar var dæmd refsing á Björninn og SA nýtti sér liðsmuninn, kornungur liðsmaður SA, Ragnhildur Kjartansdóttir, jafnaði leikinn. Áfram hafði SA yfirhöndina, a.m.k. í fjölda markskota miðað við þá tölfræði sem fram kemur í beinni atvikalýsingu. Áfram var það sama uppi á teningnum í þriðja og síðasta leikhlutanum.
Það hlýtur að vera gleðiefni fyrir hokkíáhugafólk að Sarah Smiley skuli vera búin að reima á sig skautana aftur og byrjuð að æfa og spila. Og ekki minnkar það gleðina að það var einmitt hún sem skoraði sigurmark SA þegar tæpar fimm mínútur voru eftir.
Mörk/stoðsendingar
Björninn
Mariana Birgisdóttir 1/0
Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 34
SA
Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0
Sarah Smiley 1/0
Lísa Ólafsdóttir 0/1
Sunna Björgvinsdóttir 0/1
Refsimínútur: 8
Varin skot: 6
Sigurinn í kvöld þýðir að lið SA getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á sunnudagskvöldið þegar liðin mætast í Skautahöllinni á Akureyri. Hokkíáhugafólk er hvatt til að mæta í höllina á sunnudagskvöldið og hvetja okkar lið, eins og áður hefur verið hamrað á hér á sasport.is: Stuðningur þinn skiptir sköpum! Ætlum við að halda Íslandsmeistaratitlinum þar sem hann á heima? Já, og þá verður þú að gera þitt!