Sigur Jötna í spennandi leik

Sigurreifir Jötnar. Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Sigurreifir Jötnar. Mynd: Elvar Freyr Pálsson


Jötnar sigruðu SR-inga, 4-3, í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld eftir að þeir lentu tveimur mörkum undir í öðrum leikhluta. Jötnar eru komnir með 12 stig, hafa aðeins tapað einum leik til þessa.

Tíðindalítið var í fyrri hluta fyrsta leikhluta, eða þangað til SR-ingar komust yfir eftir rúmlega átta mínútur með marki frá Sindra Björnssyni eftir stoðsendingu Viktors Svavarssonar og Tómasar Ómarssonar. Andri Freyr Sverrison jafnaði leikinn eftir um fimmtán mínútna leik með stoðsendingu frá Zdenek Prochazka. Staðan 1-1 eftir fyrsta leikhluta.

SR náði síðan tveggja marka forystu í öðrum leikhluta. Steinar Páll Veigarsson skoraði annað mark gestanna og Daníel Magnússon það þriðja með stoðsendingu frá Guðmundi Þorsteinssyni. Jötnar náðu þó að minnka muninn í 2-3 rúmlega mínútu eftir mark SR, þegar Sigurður Reynisson skoraði.

Jötnar voru síðan sterkari í lokahluta leiksins. Eftir um fjórar mínútur jafnaði Zdenek Prochazka leikinn í 3-3 og innan við hálfri mínútu síðar skoraði Hermann Sigtryggsson fjórða mark Jötna með stoðsendingu frá Sigurði Reynissyni. Það mark dugði því þrátt fyrir góð færi á báða bóga það sem eftir lifði leiks tókst liðunum ekki að bæta við og úrslitin því 4-3 fyrir Jötna.

Jötnar eru í góðri stöðu eftir sigurinn í kvöld, hafa 12 stig eftir fimm leiki. Þeir hafa aðeins tapað einum leik, en unnið fjóra.

Jötnar - mörk/stoðsendingar
Zdenek Prochazka 1/1
Sigurður Reynisson 1/1
Hermann Sigtryggsson 1/0
Andri Freyr Sverrisson 1/0
Refsingar: 14 mínútur
Varin skot: 36 (14-15-7)

SR - mörk/stoðsendingar
Sindri Björnsson 1/0
Steinar Páll Veigarsson 1/0
Daníel Magnússon 1/0
Guðmundur Þorsteinsson 0/1
Tómas Ómarsson 0/1
Refsingar: 12 mínútur
Varin skot: 39 (15-7-17)

Tölfræði mfl. kk (ÍHÍ)
Staðan, mfl. kk. (ÍHÍ)

Jón Ingi Hallgrímsson er tveggja manna maki ef marka má þessa mynd. Hann hefur vakið athygli með Jötnum, kom heim til Íslands í frí og skellti sér á svellið eftir nokkurra ára hlé frá keppni og spilar eins og hann hafi bara aðeins skroppið frá. Mynd: Elvar Freyr Pálsson. Smellið á myndina til að fara inn í myndasafn með fleiri myndum frá Elvari.