Karfan er tóm.
Silvía Rán Björgvinsdóttir hefur verið valin íshokkíkona ársins hjá Skautafélagi Akureyar árið 2018. Silvía Rán var einnig valin íshokkíkona ársins hjá Íshokkísambandi Íslands. Silvía var einn allra besti leikmaður deildarkeppninnar í fyrra með ungu liði Ynja og hefur haldið uppteknum hætti í vetur með sameiginlegu kvennaliði SA og er stigahæsti leikmaður deildarkeppninnar það sem af er vetri. Silvía spilar einnig með 2. flokki SA og hefur einnig staðið sig vel þar í vetur.
Silvía er 19 ára gömul en þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hún unnið 7 Íslandsmeistaratitla með Skautafélagi Akureyrar. Silvía kom afar ung inn í kvennalið Skautafélagsins en fyrsta leikinn spilaði hún aðeins 10 ára gömul og var orðin fastaleikmaður 12 ára gömul. Silvía hefur verið stigahæsti leikmaður Íslandsmótsins síðustu 4 tímabil. Silvía hefur einnig spilað með landsliði Íslands og þar sem tölfræðin er ekki af verri endanum en hún hefur skorað 23 mörk og gefið 7 stoðsendingar í 20 leikjum en hún var valin besti sóknarleikmaður mótsins á Heimsmeistaramótinu á Spáni í vor.
Silvía Rán er markaskorari af guðsnáð en hún er ótrúlega leikin með pökkinn og skotharkan svo mikil að fæstir markverðir ná að bregðast við áður en um seinan. Silvía er þar að auki mikil og góð fyrirmynd fyrir ungu kynslóðina og er svo sannarlega vel að nafnbótinni komin.
Við óskum Silvíu hjartanlega til hamingju með nafnbótina.