Karfan er tóm.
Kvennalandsliðið leggur á þriðjudaginn upp í langt og strangt ferðalag til að taka þátt í heimsmeistarakeppni í fjórðu deild. Þetta er í fyrsta sinn sem íslendingar tefla fram kvennalandsliði í alþjóðlegri íshokkíkeppni. Keppnin er haldin í Dunedin á Otago á Nýja Sjálandi. Það eru tæplega 18000 kílómetrar (eins og krákan flýgur) sem stelpurnar eiga eftir að ferðast til að komast á keppnisstað (og annað eins heim :-) ). Þetta er lengsta keppnisferðalag sem íslenskt landslið í íshokkí hefur lagt upp í.
Eins og fram hefur komið hér á síðunni spilaði kvennalandsliðið æfingaleik við Gulldrengi SA sl. laugardag. Þá var tækifærið notað til að safna smá pening fyrir stelpurnar.
Allir starfsmenn leiksins (dómari, línudómarar, tímavörður, ritari, markadómarar og tónlistarstjóri) gáfu vinnu sína. Allur aðgangseyrir rann til stelpnanna, jafnframt hétu Gulldrengir SA á stelpurnar heilum 1000 IKR fyrir hvert mark. Gulldrengir Bjarnarins og SR ákvaðu að lát sitt ekki eftir liggja og hétu 1000 IKR á mark líka. Leikurinn fór 8-3, en gömlu mönnunum í SA reyndist erfitt að reikna út kostnað á mann svo úr varð að allir gáfu 1000 IKR til styrktar stelpunum. Þessir fjármunir eru komnir á sérstakan reikning hjá ÍHÍ sem er eyrnamerktur kvennalandsliðinu.
Númer reikningsins hjá Íslandsbanka er: 565-14-605857
og kennitala sambandsins (ÍHÍ) er 560895-2329
Nú er búið að ná inn megninu af "áheitum" gulldrengja SA og eitthvað er farið að tínast inn frá Birninum og SR. En auðvitað er öllum velunnurum íshokkís og kvennladsliðsins frjálst að leggja inn smáaur handa stelpunum.
Við komum því sem safnast hefur til landsliðsins á þriðjudagsmorgun og höldum áfram að safna á meða þær eru úti. Tökum okkur öll saman og stöndum myndarlega að þessu. Áfram Ísland!