Styttist í úrslit

Senn fer löngu hléi á deildinni að ljúka nú þegar landsliðið snýr aftur heim eftir átökin í Kóreu.  Tveir leikir eru eftir í undankeppninni og munu þeir leikir skera úr um það hvort liðið, SA eða SR tryggir sér heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni.  Það má reikna okkur SA mönnum í hag að leikirnir báðir fara fram hér á Akureyri næst komandi föstudag og laugardag.  Okkur dugar ekkert minna en sigur í báðum leikjum til að krækja í sigurinn í deildinni og á það stefnum við ótrauðir.

Við förum inn í þessa úrslitakeppni með það fyrir augum að sigra en það sem gerir keppnina að þessu sinni ennþá skemmtilegri og spennandi er að aldrei þessu vant förum við í úrslitin sem lítilmagninn gegn stjörnu prýddu liðið Skautafélags Reykjavíkur.  Lið þeirra sunnlensku er skipað 11 leikmönnum úr karlalandsliði Íslands og 4 erlendum leikmönnum auk þess sem herlegheitunum stýrir sjálfur landsliðsþjálfarinn Ed Maggiacomo.  Allir helstu veðbankar veraldar eru því á einu máli um það að hér verði aðeins um formatriði að ræða fyrir SR að tryggja sér titillinn annað árið í röð, og þann 4. frá upphafi.

Hjá Skautafélagi Akureyrar eru fjórir leikmenn landsliðsins auk þess sem sá fimmti gæti bæst í hópinn, hann Rúnar Rúnarsson ef hann á heimangengt frá Danmörku.  Í liðinu spilar svo einn útlendingur, Tomas Fiala frá  Tékklandi.   Aðrir leikmenn eru áharðnaðir unglingar og gamlir jálkar komnir langt fram yfir síðasta söludag.

Þessi ójöfnu hlutföll hafa þó gert það að verkum að gríðarleg stemning hefur skapast á meðal leikmanna Skautafélags Akureyrar og tilhlökkunin fyrir komandi átök er engu lík.  Ágúst Ásgrímsson, aldursforseti liðsins og innvígður og innmúraður SA-maður af ættbálki Innbæinga, hefur tekið forskot á sæluna og hefur í tilefni úrslitakeppninnar rakað á sig hanakamb og stafina “SA” í hliðarnar – líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Úrslitakeppnin hefst þriðjudaginn 17. apríl og verður nánar auglýst síðar.  Það er þó rétt að minna alla SA fjölskylduna á að fara að gera ráðstafanir og fylkja liði og styðja sitt lið í úrslitakeppninni 2007.