Tveir Bandaríkjamenn til liðs við SA

Ben DiMarco.
Ben DiMarco.


Jötnar mæta Birninum í leik kvöldsins á Íslandsmóti karla í íshokkí. Leikurinn fer fram í Egilshöllinni og hefst kl. 19.30. Jötnar tefla fram tveimur nýjum leikmönnum í þessum leik, Bandaríkjamönnunum Rett Vossler, sem er markvörður, og Ben DiMarco, sem er sóknarmaður.

Það verður spennandi að sjá hvernig þessir tveir leikmenn standa sig í kvöld og svo áfram í vetur því hér virðast áhugaverðir og áhugasamir leikmenn á ferð miðað við þær upplýsingar sem fréttaritari hefur fengið. Báðir munu starfa við þjálfun hjá SA í vetur.  

Rett Vossler er fæddur árið 1991 í Houston í Texas. Hann kemur hingað frá New Mexico Renegades, en hann hefur spilað fyrir A-unglingalið í New Mexico og Amarillo í Texas, sem og í Stokkhólmi. Hann hefur jafnframt starfað við þjálfun í hokkíbúðum um öll Bandaríkin. Hann verður einn af örfáum markvörðum sem spilað hafa á Íslandi með hanskann á hægri hendi (í stað vinstri eins og flestir). Rett er 189 sm á hæð og 86 kg. Hann mun starfa við þjálfun hjá SA ásamt því að leika með Víkingum og Jötnum. Hann verður með 3. flokk, þjálfar markmenn og aðstoðar við þjálfun 4. flokks.

Ben hefur spilað á hægri kantinum og miðju undanfarið ár með Vallentuna í 1. Deildinni í Svíþjóð, en áður lék hann með liði Lawrence-háskólans í Bandaríkjunum. Hann lék sem unglingur í Cleveland og New Hampshire. Ben þjálfaði kvennalið Lawrence-háskólans í þrjú ár á meðan hann stundaði nám í háskólanum. Hann er 180 sm á hæð og 90 kg. Hann verður aðalþjálfari kvennaliða SA og aðstoðar við þjálfun 4. flokks. 

Eins og áður sagði eru þessir nýju liðsmenn í leikmannahópi Jötna í kvöld. Hægt verður að fylgjast með beinni atvikalýsingu í gegnum heimasíðu ÍHÍ.