Karfan er tóm.
SÉRSTAKLEGA vil ég þakka honum fyrir að skrifa undir nafni sem er því miður afar sjaldgæft á vefjum skautafélaganna, hvort sem um er að ræða fréttapistla eða annað efni. T.d. held ég að fréttapistillinn á ÍHÍ vefnum um leikinn sé skrifaður af dómara leiksins Viðari Garðarssyni, en ef ég hef rangt fyrir mér þá biðst ég forláts. Þó má segja að þetta sé nokkuð eðlileg ályktun því “mér er sagt” eins og sagt er að Viðar skrifi þarna flesta pistla sem er reyndar hið besta mál og pistlarnir alltaf hnitmiðaðir og fræðandi og vil ég hér með þakka pistlahöfundi/höfundum ? fyrir góð og þörf skrif. Þegar pistlahöfundur/Viðar/dómari leiksins ? skrifar “Dapurlegt var að sjá eftir leikinn þegar þjálfari SA sem skömmu áður hafði verið vísað út úr leiknum fyrir óíþróttamannslega framkomu, kom út úr búningsklefa félagsins í lok leiksins og skipaði mönnum að ganga til búningsklefa án þess að þakka andstæðingum sínum fyrir leikinn. Óíþróttamannsleg framkoma og óvirðing við leikinn sem er ekki er hægt að afsaka.” Þá er það í sjálfusér eðlileg ályktun, EN það er með þetta atvik eins og öll önnur að á hverju máli eru að minnsta kosti tvær hliðar, og frá sjónarhóli Jans þjálfara SA var þetta einföld varúðarráðstöfun til að koma í veg fyrir frekari árekstra á milli heitra leikmannanna og ef þetta hefur skoðast sem móðgun við leikinn, starfsmenn eða gestgjafana Björninn þá biðjumst við SA menn afsökunar, þetta var ekki þannig meint. Annað sem mér liggur líka á hjarta er leikdómurinn sem Lubomir fékk vegna óhlýðni í boxinu. Það atvik á sér líka amk. tvær hliðar. Lubomir mun hafa beðist undan því að þurfa að ganga í gegnum áhorfendasvæðin til búningsklefa heldur vildi fá að fara yfir svellið, sem varla gat verið mikið mál því mér skilst að leikurinn hafi verið stopp, og einfalt að dómari eða aðrir starfsmenn leiksins fylgdu honum yfir til að forðast áhorfendasvæðin. Þetta var að mínu mati mjög eðlileg og sanngjörn beiðni því samkvæmt reglum um þessi mál þá er það bannað að áhorfendur geti náð til leikmanna á leið til eða frá búningsklefa, og reyndar sektaði aganefnd SA á síðasta leiktímabili fyrir þann aðbúnað að áhorfendur gátu náð að hrækja til leikmanna á leið til búningsklefa og fylgdu ef ég man rétt þungar ályktanir frá ÍHÍ um að þetta væri óviðunandi aðbúnaður. Dómarar þurfa rétt eins og aðrir aðilar leiksins að gæta þess að láta ekki hita og hörku leiksins bera sig af leið. Með þessum skrifum er ég ekki á nokkurn hátt að reyna að afsaka þá óíþróttamannslegu framkomu sem sannanlega átti sér stað á öðrum stöðum í leiknum og ég er alls ekki talsmaður þess að dómum sé breytt eftirá en vil að það sé tekið inn í myndina að dómarar eru undir aganefnd settir rétt eins og aðrir í leiknum og að mínu mati ber aganefnd að skoða augljósar villur í dómgæslu, sem oft er hægt að sannreyna eftirá t.d. frá myndbandsupptökum, sömu augum og alvarleg brot leikmanna.
Jæja nú er mál að þessu rausi linni og ég vil bara ítreka það enn og aftur að á öllum málum eru að minnsta kosti tvær hliðar og bið bara menn almennt um að skoða málin af stillingu og raunsæi svo við getum þó lært af því sem liðið er og notað þann lærdóm til að bæta það sem framundan er.
Mikið rosalega líður mér mikið betur að vera búinn að rasa svona út. (O; Kveðja……Reynir