Karfan er tóm.
Í lok janúar eru 14 Valkyrjur að fara að taka þátt í alþjóðlegu kvennamóti í Kanada og er þetta í fyrsta sinn í sögu íshokkís á Íslandi sem kvennalið utan meistaraflokka tekur þátt í móti erlendis.
Mótið heitir TWOW X International og fer fram í George Bell Arena í Toronto. Þátttakendur eru auk Valkyrjanna, OKK Mamas frá Helsinki í Finnlandi og fjögur kanadísk lið. Mótið markar 10 ára afmæli félagsskaparins The Women of Winter (TWOW) sem hefur að markmiði að auka og styðja við þátttöku kvenna á öllum aldri í íshokkí. Stofnandi og forsvarsmaður er Deirdre Norman og hefur hún staðið fyrir Íslandsferðum kanadískra kvennaliða frá árinu 2009 en hér má finna upplýsingar um félagskapinn www.thewomenofwinter.com
Nokkrar hokkímömmur hjá Skautafélagi Akureyar byrjuðu að stunda æfingar í íshokkí haustið 2008 í kjölfar sérstaks kvennadags íshokkídeildar vorið áður. Flokkurinn Valkyrjur var síðan formlega stofnaður 16.janúar 2009 og formlega skráður sem kvennaflokkur hjá Skautafélagi Akureyrar vorið 2010 þannig að flokkurinn á 6 ára afmælisdag í dag.
Á stofnfundi flokksins fóru fram fjörugar umræður um starf, markmið og framtíðaráætlanir Valkyrja, hversu mikil alvara ætti að vera í æfingum og keppni og varð niðurstaða að láta þetta þróast að sjálfu sér en ákveðið að hafa alltaf gaman á æfingum. Eftirfarandi markmið voru sett:
Skammtímamarkmið: Að spila leik í lok tímabils og ákveðið að byrja „Off ice“ æfingar strax fyrir næstu æfingu.
Framtíðarmarkmið: Að ná öðrum ístíma svo æfingar verði 2 svar í viku og fara erlendis í keppnisferð.
Valkyrjur tóku fyrst þátt í kvennamóti haustið 2009 og hafa tekið þátt í mótum tvisvar á ári síðan, bæði við erlend lið og einnig í blönduðum liðum á kvennamótum innanlands. Árangur var rýr framan af en framfarir hafa verið stöðugar og eru nú farin að sjást bæði mörk og sigrar í leikjum Valkyrja. Nú sex árum eftir að erlend keppnisferð var sett sem markmið er hún að verða að veruleika.
Æfingar hjá Valkyrjum hafa alltaf staðið opnar fyrir konur á öllum aldri og hefur þátttaka verið ágæt í gegn um árin. Bæði hafa komið konur sem æfðu áður en einnig nýliðar sem hefur langað en aldrei haft vettvang eða stuðning til að byrja. Þá hafa hafið æfingar hjá Valkyrjum stúlkur og konur sem síðan hafa fengið inngöngu í meistaraflokk kvenna og starfsemin þannig stutt við nýliðun hjá Skautafélagi Akureyrar. Ýmsir leikmenn meistaraflokks karla og kvenna hafa þjálfað Valkyrjur í gegn um árin og hefur Rósa Guðjónsdóttir fyrrum landsliðskona séð um þjálfunina í vetur.
Valkyrjur 2. janúar 2015
Valkyrjur Skautafélags Akureyrar
Fremri röð: Margrét Mazmanian Róbertsdóttir, Elísabet Ásgrímsdóttir, Heiðrún Ósk Steindórsdóttir , Hulda Sigurðardóttir, Heiðdís Smáradóttir og Hólmfríður Þórðardóttir.
Aftari röð: Elísabet Kristjánsdóttir, Kristín B. Jónsdóttir, Kolbrún Sigurlásdóttir, Margrét Aðalgeirsdóttir, Eygerður Þorvaldsdóttir, Margrét Ólafsdóttir og Guðbjörg Lárusdóttir .
Valkyrjur ásamt liði Skautafélags Reykjavíkur á kvennamóti haustið 2013
Valkyrjur á einni af fyrstu æfingunum haustið 2008
Fremri röð: Hólmfríður Þórðardóttir, Margrét Ólafsdóttir og María Stefánsdóttir.
Aftari röð: Anna Kristveig Arnardóttir, Ásdís Sæmundsdóttir, Elínborg Sigurðardóttir, Sigrún Waage, Ólöf Sigurðardóttir og Linda Björk Ómarsdóttir.