Í gærkvöldi héldu Valkyrjurnar suður yfir heiðar og áttust þar í fyrsta skiptið við Björninn í Íslandsmótinu á þessu tímabili. Liðin áttust síðast við í æsispennandi úrslitakeppni síðasta vor hvar úrslitin réðust ekki fyrr enn í hreinum úrslitaleik.
Valkyrjurnar hófu titilvörnina sína á sigri með því að leggja Björninn í jöfnum leik, 2 – 1. Það voru þó heimakonur sem komust í forystu með eina marki 1.lotu en þar var að verki Ingibjörg Hjartardóttir. Leikar snérust við í 2.lotu en þá voru það Valkyrjur sem jöfnuðu leikinn með eina marki lotunnar eftir að Díana Björgvinsdóttir skoraði eftir stoðsendingu frá Hrönn Kristjánsdóttur.
Í síðustu lotunni var allt í járnum fram á síðustu sekúndur, en Valkyrjur gerðu út um leikinn þegar aðeins 11 sekúndur voru eftir af leiknum en þar var að verki Sarah Smiley, sem settan í þaknetið eftir sendingu frá Guðrúnu Blöndal. Svo sannarlega sætur sigur eftir jafnan og skemmtilegan leik.