Víkingar í öðru sæti eftir tap gegn SR í úrslitaleik 0:2

SA Víkingar misstu af deildarmeistaratitlinum eftir ósigur gegn SR á heimavelli síðasta laugardag, lokatölur 0-2. SR náði því hinu ómögulega að vinna deildarmeistaratitilinn eftir að hafa lengi vel verið í 3. sæti deildarinnar en hafa vaxið mikið eftir áramót og hafa unnið síðustu sjö leiki í beit. 

Leikurinn í gær var í járnum fyrstu mínúturnar og spilaðist að mestu í hlutlausasvæðinu þar sem bæði liðin voru þétt  varnarlega og lítið pláss fyrir leikmenn til að athafna sig. Fyrstu 5 mínúturnar eða svo kom nánast ekki skot á mark. Víkingar tóku völdin upp frá því og gerðu sig nokkuð líklega með pressu á mark SR og skapaðist oft mikið kraðak framan við markið. Fyrsta færi leiksins fékk Jóhann Leifsson þegar hann komst í góða stöðu en Ævar varði skot hans nokkuð auðveldlega með hanskanum. Víkingar fengu powerplay um miðja lotuna eftir klaufalegt brot hjá Robbie Sigurdsson. Víkingar sóttu látlaust og skutu eflaust 10 skotum á mark SR í yfirtölunni en inn vildi pökkurinn ekki. Arnþór Bjarnason gerðist svo brottlegur stuttu síðar og Víkingar pressuðu aftur stíft í yfirtölu en náðu ekki að skora. Stuttu síðar kom fyrsta mark leiksins upp úr nánast þurru en þá vann Arnþór Bjarnason pökkinn í sóknarsvæðinu og flengdi honum fram fyrir markið þar sem Kári Guðlaugsson stóð óvaldaður og kláraði færið af yfirvegun, 1-0 fyrir útiliðinu. Strax í næstu sókn fékk Andri Már Mikaelson stórann dóm fyrir tæklingu og SR fékk sína fyrstu yfirtölu. Víkingar stóðu pressuna af sér en SR var nálægt því að skora skömmu fyrir lok lotunnar eftir fallega skyndisókn sem endaði hjá Robbie Sigurdsson sem skaut pekkinum fram hjá fyrir opnu marki.

Í byrjun annarar lotu gerðist nokkuð óvænt. Stefán nokkur Hrafnsson steig á ísinn í fyrstu keðju Víkinga en hann lagði skautana á hilluna eins og flestir vita eftir síðasta tímabil. Honum var strax hent í djúpulaugina en hann var ekki langt frá því að skora úr sinni fyrstu snertingu. Ævar í marki SR varði skot Stefáns vel en Ben náði frákastinu fyrir opnu marki en varnarmaður SR varði skot hans á marklínunni. Bæði lið fengu ágætis færi í byrjun lotunnar en það besta fékk sennilega Rúnar Freyr Rúnarsson sem setti pökkinn í stöngina úr góðu færi. Annað mark leiksins kom rétt eins og það fyrsta upp úr nánast engu þar sem Víkingar voru á leið út úr varnarsvæði sínu en pökkurinn skopaði af kylfu leikmanns og beint fyrir Robbie Sigurdsson sem skaut snöggu skoti á markið og pökkurinn lá í netinu. 2-0 fyrir SR.  Víkingar fengu tækifæri í kjölfarið að minnka munninn þar sem Ben Dimarco sendi á Stefán Hrafnsson í gegnum vörn SR en hann náði ekki að skora. Liðin fengu sitthvora yfirtöluna fyrir lok lotunnar og áttu ágætis marktækifæri án þess að skora en markverðirnir þurftu að taka á honum stóra sínum í ófá skipti.

SR ingar byruðu þriðju lotuna vel en Víkingar fengu powerplay í byrjun lotunnar en náðu ekki að nýta sér það og sköpuðu lítið. Bæði lið fengu úrvalsfæri eftir varnarmistök í kjölfarið. Mikið var um brottrekstra í lotunni en hvorugu liði tókst að nýta sér það. Leikurinn var nokkuð óreiðukenndur þar sem Víkingar reyndu hvað þeir gátu að byggja upp spil og ná góðum sóknum á meðan SR-ingum nægði að brjóta niður spilið og beita skyndisóknum sem þeir gerðu vel. SR landaði góðum sigri þar sem liðsheildin skilaði sínu og það var erfitt að finna veikan hlekk. SR eru þar með deildarmeistarar 2015 og Skautafélag Akureyrar óskar þeim til hamingju með það.

Leikinn er hægt að skoða hér fyrir þá sem það vilja.

SR byrjar því úrslitakeppnina á heimavelli og hafa nú tekið við keflinu sem sigurstranglegra liðið en á brattann er að sækja hjá Víkingum sem hafa ekki náð stigi gegn SR í síðustu þremur viðureignum liðanna. Nokkuð er á reiki um hvort færa skuli úrslitakeppnina svo ekki er vitað á þessum tímapunkti hvenær nákvæmlega fyrsti leikurinn fer fram en ljóst er að hann verður í Laugardal. Fyrstu tveir leikirnir fara fram þar en næstu tveir leikir á eftir á Akureyri.  

Samkvæmt uppflettingu í mótaskrá sambandsins kl. 08,00 í morgun er fyrsti leikur skráður mánudaginn 16. Mars en heyrst hefur að hann verði fluttur fram um 1 dag þ.e. til sunnudagsins 15. Mars.