Um helgina spilaði SA tvo leiki við Narfamenn hér í Skautahöllinni á Akureyri. Leikmenn SA voru heldur færri á leikskýrslu að þessu sinni þar sem 10 leikmenn voru fjarverandi m.a. vegna U18 æfingabúða og meiðsla. Það var því ágætis ástæða til að leyfa yngri leikmönnum að spila sem og þeim sem minna höfðu fengið að spreyta sig í vetur. Fyrri leikurinn fór 9-1 og sá seinni 18-0. Fyrri daginn var Ómar Smári í markinu en þann seinni Sæmundur Leifsson og var sá síðarnefndi ánægður með "shut-out-ið". Litli bróðir hans Sæma, Jóhann Leifsson fæddur 1993, var ekki síður ánægður með leikinn því hann skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki í 18-0 leiknum. Meðfylgjandi mynd er einmitt af hinum unga markaskorara.