Karfan er tóm.
Ynjum tókst ekki að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í gærkvöldi, fimmtudagskvöld, þegar þær mættu Ásynjum öðru sinni í úrslitakeppninni. Ásynjur höfðu undirtökin lengst af í leiknum og sigurinn sanngjarn.
Ynjur byrjuðu ekki vel, sendingar ónákvæmar og greinilega stress í þeim. Ásynjur voru með pökkinn inn í varnarsvæði Ynja nánast allan seinni helming fyrstu lotu en tókst þó ekki að koma honum framhjá Birtu í markinu. Ásynjur stjórnuðu leikum algjörlega og voru ógnandi fyrir framan mark Ynja, en náðu ekki að skora og staðan í lok fyrstu lotu 0-0.
Eftir tæpar 5 mínútur af annarri lotu skoraði Birna glæsilegt mark og kom Ásynjum fyrir. Það fór sennilega um flesta stuðningsmenn Ynja, ekki síst þegar Birna slapp óvölduð inn fyrir Ynjuvörnina um mínútu síðar. En þegar rúmar 7 mínútur voru liðnar af lotunni skoraði Silvía glæsilegt mark eftir stoðsendingu frá Sunnu og jafnaði, 1-1. Undir lok lotunnar voru svo Ásynjur að leggja af stað þegar Sunna hirti af þeim pökkinn, setti hann snyrtilega í markið og kom Ynjum yfir, 1-2. Þegar lotan var rétt að klárast átti Sarah gott skot að marki Ynja en pökkurinn fór rétt framhjá þannig að staðan eftir aðra lotu var 1-2.
Þriðja lota einkenndist af miklu stressi og óvönduðum sendingum og leikmenn virtust þreyttir. Þær fóru ekki í pökkinn og engin til að hirða fráköstin. Ásynjur sóttu stíft undir lok lotunnar enda sáu þær að Ynjurnar voru nánast komnar með Íslandsmeistarabikarinn í hendurnar. Þær tóku Guðrúnu Katrínu úr markinu og spiluðu með sex útileikmenn. Ynjur náðu aldrei að koma pekkinum almennilega út úr varnarsvæðinu sínu og þegar 15 sekúndur voru til leiksloka, náði Anna Sonja að koma pekkinum framhjá vörn Ynja og Birtu í markinu, eftir góðan undirbúning Guðrúnar Marínar, og jafna í 2-2. Þar með var leikurinn framlengdur og þá var það Guðrún Marín sem kom pekkinum í markið og tryggði Ásynjum sigur.
Skiptingar hjá Ynjum tóku langan tíma, sendingar misheppnaðar og þær skildu stundum pökkinn eftir í seilingarfjarlægð frá andstæðingi og voru heppnar að lenda ekki 2-3 mörkum undir. Ásynjur áttu 36 skot á mark en Birta varði mjög vel (92%) og hélt Ynjum inn í leiknum. Ynjur áttu hins vegar 19 skot á mark Ásynja. Þetta sýnir sennilega best hvort liðið vildi sigurinn frekar.
Bart Moran, þjálfari Ásynja, sagði að enn og aftur hefðu áhorfendur fengið að sjá jafnan og spennandi leik milli þessara tveggja liða. Hann sagði að þetta væru maraþonleikir og leikurinn á sunnudaginn yrði örugglega enn meira spennandi. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, gagnrýndi leikjauppröðun. Stór hópur stúlknanna sem eru að spila þessa leiki er að fara til Spánar á HM strax eftir helgina og þegar svona þétt sé spilað og leikmenn þreyttir, sé aukin hætta á meiðslum.
Á sunnudaginn verður þriðji og síðasti leikurinn í úrslitunum og þá ræðst hvort SA-liðið lyftir Íslandsmeistarabikarnum. Leikurinn hefst klukkan 18:30 og frítt inn eins og venjulega.
Mörk (stoðsendingar) Ásynja: Guðrún Marín 2, Birna 1, Sarah (2) og Anna Sonja (1)
Mörk (stoðsendingar) Ynja: Sunna 1 (1) og Silvía 1