Karfan er tóm.
Ynjur lögðu land undir fót í gær þegar þær sóttu heim sameinað lið SR og Bjarnarins í Laugardalnum. Þær höfðu töglin og hagldirnar allan leikinn og komu heim með þrjú stig eftir 12-2 sigur.
Leikurinn fór fram eftir að lið annars flokks SA og SR höfðu ást við í skrautlegum leik þar sem SA hafði betur, 6-1. Ynjur komust yfir strax á sjöundu mínútu þegar Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði laglegt mark framhjá Guðlaugu Þorsteinsdóttur í marki Reykjavíkurstúlkna. Silvía kom Ynjum síðan í 2-0 stuttu seinna og rétt undir lok fyrstu lotu skoraði Anna Karen Einisdóttir þriðja mark Ynja og jafnframt sitt fyrsta mark í meistaraflokki.
Silvía hélt uppteknum hætti og skoraði sitt þriðja mark strax í upphafi annarrar lotu og kom Ynjum í 5-0 stuttu síðar. Saga Margrét Blöndal bætti marki við stuttu síðar og síðan Berglind Rós Leifsdóttir, báðar án stoðsendingar, áður en Laura Murphy náði að minnka muninn fyrir Reykjavík. Staðan var þá 7-1 en fyrirliðanum, Ragnhildi Kjartansdóttur, fannst það ekki nóg þannig að hún bætti við áttunda marki Ynja, rétt fyrir seinna leikhlé.
Reykjavíkurstúlkur náðu að minnka muninn í 8-2 þegar um þrjár og hálf mínúta voru liðnar af þriðju og síðustu lotunni en Ynjur svöruðu fyrir sig með fjórum mörkum og leikurinn endaði, eins og áður sagði, með sigri Ynja, 12-2. Silvía Rán átti níunda markið, Sunna Björgvinsdóttir það tíunda, Teresa Snorradóttir ellefta og Apríl Orongan tólfta og síðasta markið.
Ynjustúlkur spiluðu vel og Reykjavíkurliðið átti aldrei möguleika á sigri. Flest mörkin voru skoruð með fallegum stoðsendingum og þjálfari Ynja, Jussi Sipponen gaf öllum sínum leikmönnum tækifæri til að spila töluvert í seinni tveimur lotunum. Með sigrinum náðu Ynjurnar stöllum sínum í Ásynjum að stigum en bæði lið eru nú með 12 stig eftir að hafa leikið 5 leiki. Ásynjur hafa þó örlítið betra markahlutfall, 25 mörk í plús en Ynjur 20. Þessi lið munu einmitt eigast við n.k. þriðjudagskvöld og verður spennandi að sjá hvort liðið fer með sigur af hólmi þá. Þetta er þriðja viðureign liðanna í vetur og staðan er 1-1.