Karfan er tóm.
Ynjur tóku á móti Reykjavík í gærkvöldi, föstudagskvöld, í leik sem fara átti fram á þriðjudagskvöld en var frestað þá vegna veðurs. Upphaflega hafði leikurinn verið settur rétt fyrir jól en verið frestað vegna landsliðsæfinga. Ynjurnar höfuð algjöra yfirburði í leiknum og sigruðu örugglega, 13-2. Þær byrjuðu af krafti og Silvía skoraði án stoðsendingar eftir aðeins 6 sekúntur. Stuttu seinna skoraði Hilma með stoðsendingu frá Sögu og Katrínu og svo Silvía aftur, nú með stoðsendingu frá Teresu. Hún bætti svo sínu þriðja marki við með stoðsendingu frá Gunnborgu og Katrínu áður en Hilma skoraði fimmta mark Ynja. Staðan var orðin 5-0 eftir innan við sex og hálfa mínútu og það var hún enn í lok fyrstu lotu. Ynjur voru þó miklu meira með pökkinn það sem eftir lifði lotunnar án þess að ná að skora.
Reykjavíkurstúlkur opnuðu markareikning sinn þegar rúmar 7 mínútur voru liðnar af annarri lotu en Sunna svaraði strax fyrir Ynjur með stoðsendingu frá Teresu og Sögu. Hilma átti sjöunda mark Ynja, án stoðsendingar, og undir lok lotunnar skoraði Sunna, líka án stoðsendingar og einni færri. Staðan í seinna leikhléi var 8-1.
Ynjustúlkur héldu uppteknum hætti í upphafi þriðju lotu og nú var það Teresa sem skoraði með stoðsendingu frá Ragnhildi og Berglindi. Undir miðja lotuna minnkuðu Reykjavíkurstúlkur muninn í 9-2 en Saga svaraði strax fyrir Ynjur með stoðsendingu frá Hilmu og Ingu. Stuttu síðar bætti Teresa 11. marki Ynja við með stoðsendingu frá Elínu og Silvía því tólfta með stoðsendingu frá Sunnu þegar tæpar 7 mínútur voru eftir af leiknum. Teresa innsiglaði svo 13-2 sigur Ynja þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
Þó Ynjur hafi unnið öruggan sigur má ýmislegt bæta í leik þeirra. Skiptingar voru ekki nógu öruggar og samspilið hefði oft mátt vera betra. Hins vegar eru líka margir góðir punktar sem vert er að draga fram. Allir leikmenn liðsins fengu að spreyta sig og yngstu stúlkurnar launa tækifærið með því að sýna góðar framfarir.
Jordan Steger og Rósa Guðjónsdóttir stóðu vaktina á bekk Ynja í fjarveru Jussa Sipponen sem er með U20 karlalandsliðinu í Búlgaríu. Jordan sagði eftir leikinn að stúlkurnar hefðu vitað hvað þær áttu að gera og spiluðu vel eins og markatalan í lokin sýndi. Staðan í deildinni efir leikinn er sú að Ynjur eru á toppnum með 22 stig en Ásynjur sem hafa 20 stig hafa tækifæri til að komast aftur á toppinn með sigri á Reykjavíkurliðinu í kvöld.
Mörk (og stoðsendingar) Ynja: Silvía 4, Hilma 3 (1), Teresa 3 (2), Sunna 2 (1), Saga 1 (2), Gunnborg (1), Katrín (1), Berglind (1), Ragnhildur (1), Inga (1) og Eín (1).