Emilía Rós Ómarsdóttir Skautakona ársins 2016

 Tilkynning frá Skautasambandi Íslands

Reykjavík, 15.12.2016

 

Skautakona ársins 2016

Emilía Rós Ómarsdóttir hefur verið valin Skautakona ársins 2016 af stjórn Skautasambands Íslands. Emilía Rós keppir í listhlaupi á skautum fyrir hönd Skautafélags Akureyrar og er á sínu öðru ári í Unglingaflokki A (Junior). Er þetta í annað sinn sem hún hefur hlotið nafnbótina Skautakona ársins en hún hlaut verðlaunin einnig árið 2015.

Helsta afrek Emilíu Rósar á árinu var stigamet hennar í skori í stuttu prógrami á Vormóti Skautasambands Íslands 2016. Hún hlaut 38.91 stig í stuttu prógrami og 61.31 stig í frjálsu prógrami og var heildarskor hennar á mótinu 100.22 stig. Meðaltal af heildarskori Emilíu Rósar á árinu er 93.09 stig.

Emilía Rós hefur verið virkur keppandi bæði innanlands og utan á árinu. Hún hefur tekið þátt á þremur alþjóðlegum mótum, RIG, Norðurlandamótinu í Svíþjóð og á Junior Grand Prix í Tallin, Eistlandi, í október síðastliðnum. Junior Grand Prix (JGP) er mótaröð á vegum Alþjóða skautasambandsins (ISU).

Þjálfari Emilíu Rósar í gegnum tíðina hefur verið Iveta Reitmayerova en núverandi þjálfari hennar hjá Skautafélagi Akureyrar er Danylo Yefimtsev.

Emilía Rós er kappsfullur íþróttamaður sem leggur sig fram í íþrótt sinni og er yngri iðkendum góð fyrirmynd bæði í framkomu og viðhorfi til íþróttarinnar.

Skautasambandið óskar henni hjartanlega til hamingju með titilinn.

 

 

f.h. stjórnar Skautasambands Íslands

 

_____________________________________
Guðbjört Erlendsdóttir
Formaður