Karfan er tóm.
Nú er það ljóst að Heimsmeistaramót kvenna í annarri deild verður haldið á Akureyri daganna 27. Febrúar – 5. Mars 2017. Þetta eru frábærar fréttir fyrir Skautafélagið sem fagnar einmitt 80 ára afmæli á árinu 2017 og því kærkomin afmælisgjöf fyrir félagsmenn og bæjarbúa. Jafnframt er þetta langstærsti viðburður sem haldin hefur verið í Skautahöllinni á Akureyri og frábært fyrir félagið og bæinn að fá að halda eins stórt mót og heimsmeistaramótið er.
Sex þjóðir taka þátt í mótinu en auk Íslands eru það Rúmenía, Nýja-Sjáland, Mexíkó, Spánn og Tyrkland. Það verða fimm leikdagar og á hverjum leikdegi eru leiknir þrír leikir sem byrja kl 13.00, 16.30 og kl 20.00 en heimliðið Ísland spilar alla sína leiki kl 20.00. Hér má sjá leikjadagskrá mótsins. Ísland varð í þriðja sæti á mótinu í fyrra en leikirnir við liðin sem enduðu ofar töpuðust báðir með einu marki. Það væri óskandi ef hægt væri að fylla höllina á leikjum Íslands svo liðið fengi sem besta mögulega stuðning og næði loksins þeim markmiðum sínum að fara upp um deild. Í íslenska liðinu eru margar stelpur sem leika með Skautafélaginu Akureyrar og enn fleiri sem eru uppaldar hjá félaginu svo stuðningin ætti varla að vanta.
Heimsmeistaramótum alþjóða íshokkísambandsins fylgja miklar venjur og öll umgjörð er hin glæsilegasta. Það má fastlega gera ráð fyrir því að um 300 gestir munu sækja bæinn heim erlendis frá vegna mótsins sem munu án efa setja svip sinn á bæinn á meðan mótinu stendur. Fyrir þá sem ætla sér að fá sem mest úr mótinu þá er gott að taka vikuna frá en það eru fjölmörg hlutverk í boði fyrir þá sem hafa áhuga á að starfa við mótið.