Karfan er tóm.
Íslenska karlalandsliðið í íshokkí hefur keppni á HM í Jaca á Spáni á morgun þegar liðið mætir Belgíu í fyrsta leik mótsins. Þessi lið mætust einnig í fyrsta leik á HM á síðasta ári sem fram fór í Reykjavík en þá hafði Ísland betur 3-0 en Ísland hafnaði í fimmta sæti á mótinu en Belgía í öðru sæti. Leikurinn á morgun hefst kl 11.00 á íslenskum tíma og er sýndur beint hér.
Í riðlinum eru auk Íslands að þessu sinni: Belgía, Spánn, Kína, Holland og Serbía. Holland eru fyrirfram taldir sigurstranglegastir enda komu þeir niður úr 1. deild og hafa verið þar um nokkurt skeið. Kína kom upp úr 2. deild B en eru þó ekki langt frá öðrum þjóðum í riðlinum að styrkleika. Ísland, Serbía og Spánn enduðu öll með 7 stig á mótinu í fyrra og þá réði innbyrðis markahlutfall því að Ísland varð í fimmta sæti en ekki því þriðja. Belgía var með 8 stig í öðru sæti og þessi lið því fyrirfram talin nokkuð jöfn.
SA á fjóra fulltrúa í íslenska liðinu þá Ingvar Þór Jónsson fyrirliða liðsins, Andri Má Mikaelsson, Orra Blöndal og Hafþór Andra Sigrúnarsson. Þá eru einnig í liðinu þeir Ingþór Árnason og Jóhann Már Leifsson sem eru uppaldir í SA en spiluðu í svíþjóð í vetur og aðstoðarþjálfari liðsins er enginn annar en Sigurður Sveinn Sigurðsson.
Íslenska liðið er búið að vera í æfingarbúðum í Svíþjóð og spiluðu þar tvo leiki við U-20 SuperElite lið Mora og unnust báðir leikirnir með markatölunum 7-5 og 3-2 en Andri Mikaelsson, Jóhann Leifsson og Ingþór Árnason voru á meðal markaskorara í leikjunum. Áfram Ísland!