Karfan er tóm.
Kvennalið Skautafélags Akureyrar tryggði sér í gærkvöldi Íslandsmeistaratitilinn með góðum 4 – 1 sigri á Birninum í þriðju viðureign liðanna í úrslitakeppninni. Liðið spilaði af miklu öryggi og hafði töluverða yfirburði í leiknum. Liðið náði forsystu þegar Hrund Thorlacius skoraði eina mark fyrstu lotu, skopparapökkur frá bláu í gegnum traffík – óverjandi fyrir Karitas í marki Bjarnarins.
Í 2. lotu hélt SA sóknarþunganum en inn vildi pökkurinn ekki og markvörður Bjarnarins hafði í nógu að snúast. Það var svo Sarah Smiley sem jók forystuna í 2 – 0 eftir góðan undirbúning frá Kristínu Jónsdóttur sem var fyrir aftan mark Bjarnarins þegar hún sendi stutta og snögga sendingu á Söruh sem afgreiddi þetta vel. Fleiri urðu mörkin ekki í 2. lotu.
Þegar um 6. mínútur voru liðnar af 3.lotu skoraði Guðrún Arngrímsdóttir af stuttufæri eftir harða baráttu við markteig Bjarnarins og við þetta mark fögnuðu áhorfendur vel og fólk farið að sjá fyrir sér sigurinn.
Hanna Heimisdóttir minnkaði muninn fyrir Björninn skömmu síðar en síðasta mark leiksins áttu heimastúlkur í „power play“ – Birna Baldursdóttir skoraði með viðstöðulausi skoti á fjærstöng eftir góða sendingu frá Guðrúnu Blöndal, lokastaðan 4 – 1 og sætur sigur í höfn.
Leikurinn í gær var frábær skemmtun og áhorfendamet á kvennaleik var slegið. Jafnframt voru hér fjölmargir blaðaljósmyndarar og fjölmiðlamenn auk þess sem leikurinn var sýntu beint á N4. Það er óhætt að fullyrða það að kvennahokkí hefur aldrei fengið eins mikla athygli og nú. Þetta er góður meðbyr fyrir heimsmeistaramótið sem hefst eftir rúma viku og vonandi fær landsliðið notið þeirra stemningar sem skapast hefur í kringum hokkíið á síðustu vikum.
Sigurinn í gær var enn ein fjöðrin í hatt Söruh Smiley, sem hefur unnið ötullega að uppbyggingu kvennahokkís síðustu ár, en hún hóf þjálfun hér á landi árið 2006. Fjöldi kvenna í íshokkí hér á Akureyri hefur margfaldast síðustu ár og nú telur hópurinn um 60 iðkendur, eða um þriðjung þeirra sem æfa íshokkí hjá Skautafélagi Akureyrar.