Karfan er tóm.
Þá liggur það fyrir að U20 ára landsliðið okkar hefur fallið niður um deild, eftir aðeins eitt ár í 2. deildinni. Það virðist enn um sinn vera okkar hlutskipti að rokka á milli deilda með yngri landsliðin okkar. Það var vitað fyrirfram að keppnin yrði okkur erfið því mótherjarnir voru sterkir og sem dæmi hefur verið nefnt að Ísland hefur aldrei lagt að velli eitthvert þessara liða sem þarna var mætt til keppni. Liðið kom þó á óvart strax í fyrsta leik með sigri á Belgum, en tapaði svo öllum hinum leikjunum en litlu munaði á móti Spánverjum, en á leikur fór 1 - 0.
Með sigri á Belgum var engu að síður komin von um að sætið í deildinni væri tryggt en svo tókst Belgum að vinna nágranna sína frá Hollandi í framlengingu og því réðust örlög okkar ekki fyrr en í gærkvöldi í síðasta leik mótsins. Þá mættu Belgar heimamönnum, Eistum og við urðum að treysta á sigur þeirra síðarnefndu. Það tókst hins vegar ekki, en þar munaði samt minnstu að Belgar gerðu okkur greiða og sendu Eistana niður því þegar leiknum lauk voru Eistar jafnir Íslandi að stigum með nákvæmlega sama markahlutfall, þ.e. -13. Ef ég skil þetta rétt hefðu Belgar bara þurft að skora einu marki fleira sem hefði aukið mínus Eista um eitt sem hefði skilað okkur í sætið fyrir ofan þá.
En svona geta íþróttirnar verið. Þetta stóð tæpt í lokin en á endanum var það aðeins eitt mark sem réð úrslitum. Strákarnir halda heim á leið í dag og mega bera höfuðið hátt þrátt fyrir óheppilega lokaniðurstöðu. Áfram Ísland.