Karfan er tóm.
SA Víkingar tryggðu sér Deildarmeistaratitilinn í Hertz-deild karla í gærkvöld þegar þeir lögðu SR 8-3. SA Víkingar hafa unnið 8 af 9 leikjum sínum í deildinni og eru með 24 stig en Fjölnir er með 13 stig í öðru sæti og SR með 2 stig. SA Víkingar spila við SR öðru sinni í kvöld en lítið eru undir hjá Víkingum á meðan SR þurfa að hafa sig allan við til að eygja möguleika á sæti í úrslitakeppninni.
SA Víkingar voru mun sterkari aðilinn á svellinu í gærkvöld eins og lokatölur gefa til kynna en Aron Leví í marki SR var ljár í þúfu Víkinga lengi framan en hann varði eins og berserkur á köflum. SA Víkingar skoruðu 4 mörk gegn 2 í fyrstu lotu en mörkin gerðu þeir Jóhann Már Leifsson, Unnar Rúnarson, Baltasar Hjálmarsson og Orri Blöndal. Liðin skoruðu sitt hvort markið í annarri lotunni en mark Víkinga skoraði Halldór Skúlason. SA Víkingar skoruðu svo þrjú ósvöruð mörk í síðustu lotunni en þar voru að verki Jóhann Már Leifsson öðru sinni í leiknum, Heiðar Jóhannsson og Róbert Hafberg.
SA Víkingar eru því deildarmeistarar þrátt fyrir að eiga þrjá leiki eftir í deildarkeppninni og tryggðu sér einnig heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. SA Víkingar mæta SR aftur í kvöld en SR-ingar róa nú lífróður til þess að ná sæti í úrslitakeppninni.