Karfan er tóm.
SA Víkingar spiluðu þrjá leiki síðastliðna helgi í svokallaðri ofurhelgi Íshokkísambandsins þar sem heil umferð var leikin og öll lið léku þrjá leiki á jafnmörgum dögum. Helgin var sannkölluð hokkíveisla fyrir íshokkíunendur en styrktaraðilar buðu frítt á leikina og mæting á leikina var með því besta sem sést hefur í skautahöllunum syðra. Liðin höfðu styrkt sig nokkuð fyrir átökin en Esja bætti við sig Tékkneskum leikmanni og Björninn bætti við sig tveimur erlendum leikmönnum rétt fyrir Ofurhelgina.
SA Víkingar sigruðu Esju á föstudagskvöldinu 3-2 en þetta var í fyrsta skipti á tímabilinu sem Víkingar leggja Esju. Esja náði 1-0 forystu í fyrsta leikhluta en SA Víkingar mættu grimmir í aðra lotu og skoruðu þrjú mörk. SA Víkingar voru mjög þéttir í vörninni það sem eftir lifði leiks og gáfu Esju fá færi á því að jafna leikinn en Esja skoraði eina markið í þriðju lotunni. Flottur sigur hjá Víkingum sem gaf góð fyrirheit um framhaldið.
Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Jussi Sipponen 1/2
Ingvar Þór Jónsson 1/0
Matthías Már Stefánsson 1/0
Andri Már Mikaelsson 0/1
Á laugardeginum mættu SA Víkingar Birninum í Egilshöll og til þess að gera langa sögu stutta þá varð algjört varð algjört hrun í leik SA frá leiknum gegn Esju og algert andleysi réð ríkjum. SA náði forystunni tvisvar í leiknum en í annarri lotunni tóku Björninn öll völd á vellinum og unnu verðskuldaðann 6-2 sigur.
Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Heiðar Örn Kristveigarson 1/0
Jón B. Gíslason 1/0
Björn Már Jakobsson 0/1
Jussi Sipponen 0/1
SA Víkingar mættu svo SR í síðasta leik helgarinnar á sunnudagskvöldinu og allt annað var að sjá til liðsins. Fyrsta lotann var frábær hjá SA Víkingum sem réðu algjörlega ferðinni en markalaust var eftir lotunna. SA Víkingar skoruðu tvö mörk í byrjun annarrar lotu en SR minnkaði muninn í eitt mark fyrir síðustu lotuna. Í þriðju lotunni skoruðu Víkingar þrjú mörk og unnu 5-1 sigur.
Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:
Jussi Sipponen 2/1
Jón B. Gíslason 1/2
Andri Már Mikaelsson 1/1
Heiðar Örn Kristveigarson 1/0
Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1
Ingvar Þór Jónsson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Hilmar Leifsson 0/1
Sigurður S. Sigurðsson 0/1
SA Víkingar fengu flest stig liðanna úr helginni með tveimur sigrum og 6 stig. Björninn og Esja fengu 5 stig þar sem bæði lið unnu einn leik og annan í framlengingu en SR fékk 2 stig eftir að hafa tapað gegn bæði Esju og Birninum í framlengdum leik og því rýr uppskera þar á bæ miðað við framlag.
Staðan í deildinni er þá þannig að öll lið hafa leikið 10 leiki og Esja heldur efsta sætinu með 22 stig, Víkingar 17 stig, Björninn 13 og SR rekur lestina með 8. Öll lið eiga eftir að leika 14 leiki svo mikið getur breyst en miðað við úrslit síðustu leikja virðasta öll lið deildarinnar nokkuð jafna möguleika. SA Víkingar heimsækja Esju í laugardaglinn næstkomandi helgi en það er síðasti leikur deildarinnar fyrir landsleikja frí en deildin hefst svo aftur 14. nóvember þegar SA Víkingar taka á móti Birninum í Skautahöllinni á Akureyri.