Karfan er tóm.
Það er nokkuð um liðið síðan ljóst var að U16 lið okkar, Víkingar væru orðnir Íslandsmeistarar. Það kom í ljós eftir næst síðasta leik liðsins sem fram fór við Fjölni þann 13. maí að liðið hefði tryggt sér titilinn. Síðasti U16 leikur tímabilsins fór svo fram í skautahöllinni á Akureyri fimmtudaginn 18.4. innbyrðis leikur milli SA liðanna Jötna og Víkinga þar sem Jötnar fóru með sigur af hólmi í geysi spennandi leik.U16 Jötnar enduðu í 3. sæti í mótinu að þessu sinni en leikirnir hafa yfirleitt verið mjög spennandi, ekki síst innbyrðis leikir SA liðanna. Víkingar eru með níu sigra og þrjú töp á tímabilinu, eitt gegn SR og tvö gegn Jötnum. Jötnar eru með sjö sigra og fjögur töp til jafns við SR nema hvað að SR á sigur í framlengdum leik og á því einu stigi betur.
Úrslit mótsins eru eftirfarandi: Víkingar eldra lið Skautafélags Akureyrar er með 27 stig í fyrsta sæti. Lið Skautafélags Reykjavíkur er með 23 stig í öðru sæti. Jötnar yngra lið Skautafélags Akureyrar er með 22 stig í þriðja sæti. Lið Fjölnis rekur lestina án stiga.
Við erum að vonum stolt af þessum ungu leikmönnum sem stóðu sig vel og ef við rýnum í tölfræðina sjáum við að Alex Ingason Víkingum var í öðru sæti yfir markahæstu leikmenn með 43 stig eftir 11 leiki, á 30 mörk og 13 stoðsendingar. Mikael Eiríksson Jötnum var í þriðja sæti með 33 stig og Askur Reynisson einnig í Jötnum í því fimmta með 27 stig. Markvörðurinn okkar Díana Lóa Óskarsdóttir var í öðru sæti yfir stigahæstu markmenn mótsins en þess má geta að hún spilaði aðeins hálft tímabilið í deildinni þar sem hún hóf aðeins að æfa með félaginu í janúar eftir flutninga með fjölskyldu sinni frá Svíþjóð um áramót. Díana var með 82% hlutfall.
Silvía Rán Björgvinsdóttir og Róbert Andri Steingrímsson tóku við þjálfun liðsins um áramótin þegar Jamie Dumont þurfti að hverfa frá þjálfun hjá félaginu. Það er öflugt að geta teflt fram tveimur svona sterkum liðum i þessum aldursflokki og ekki annað hægt að segja en framtíðin sé björt íshokkí bænum Akureyri. Með fylgja nokkrar myndir frá bikarafhendingu eftir síðasta leik liðanna.
Ólöf Björk formaður hokkídeildar afhendir Aroni Gunnari fyrirliða Víkinga bikar eftir síðasta leik liðsins
Lið Víkinga Íslandsmeistarar 2024
Leikmenn U16 liða Skautafélags Akureyrar, Víkinga og Jötna.