Karfan er tóm.
Reglur Íslandsmótsins í krullu: Smellið hér til að opna (pdf-skjal).
Átta lið skráðu sig tilleiks á Íslandsmótinu að þessu sinni - sömu lið og hafa tekið þátt í öðrum mótum á þessu keppnistímabilli (Fífurnar, Garpar, Mammútar, Riddarar, Skytturnar, Svarta gengið, Víkingar og Üllevål). Fyrsta umferðin fer fram mánudagskvöldið 25. janúar og verður dregið um töfluröð fyrir þá umferð. Leikjadagskráin liggur hins vegar fyrir - sjá excel-skjal hér. Í skjalinu með leikjadagskránni eru einnig upplýsingar um ísumsjón liða. Við uppröðun leikja var miðað við að þegar upp er staðið hafi öll liðin leikið þrisvar eða fjórum sinnum á hverri braut. Fjögur lið eru sett með ísumsjón hverju sinni, í fyrri hluta mótsins eru það liðin sem spila á brautum 4 og 5 hverju sinni og í síðari hluta mótsins liðin sem spila á braut 1 og 2 hverju sinni.
Ákveðið hefur verið að liðin átta leiki tvöfalda umferð, allir við alla, sem sagt 14 leikir á lið í svokallaðri deildarkeppni. Liðið sem stendur efst að lokinni deildarkeppni hlýtur titilinn deildarmeistari. Deildarkeppnin fer fram á tímabilinu 25. janúar til 22. mars. Leikið verður öll mánudagskvöld á þessu tímabili (9) og fimm miðvikudagskvöld. Miðvikudagskvöldin 3. febrúar, 24. febrúar og 17. mars er frí frá keppni, nema hvað þessi kvöld eru ætluð undir frestaða leiki ef einhverjir verða. Deildarkeppninni lýkur mánudagskvöldið 22. mars, fríkvöld er miðvikudagskvöldið 24. mars en síðan fer fram úrslitakeppni fjögurra efstu liða 26. og 27. mars (föstudagur og laugardagur).
Nokkur breyting hefur verið gerð á reglum frá því sem verið hefur og eru þær breytingar í átt að reglum Alþjóða krullusambandsins (WCF) og svipaðar þeim reglum sem notast er við á helstu mótum (HM, EM og fleirum). Má þar helst nefna að við byrjun hvers leiks (í lok upphitunar) fer fram skotkeppni þar sem einn úr hvoru liði sendir stein að miðju hrings og er leyft að sópa. Miðað er við að þegar annað lið hefur lokið hefðbundinni æfingu á sinni braut þá taki það sitt skot, síðan æfir hitt liðið sig og tekur svo sitt skot. Árangur úr þessum skotum er alltaf mældur og skráður og skal einn úr hvoru liði sjá um mælinguna. Miðað er við að fjarlægð sé skráð með einum aukastaf. Steinn sem endar utan hrings fær gildið 185,4 sentímetrar (6 fet og 1 tomma). Tilgangur þessara skota er tvíþættur. Annars vegar er þetta aðferð til að ákveða hvort liðið hefur val um hamarinn (síðasta stein) í fyrstu umferð. Það lið sem á stein nær miðju hrings fær það val. Hins vegar er samanlagður árangur úr þessum skotum (að frádregnum versta árangri hvers liðs) notaður til að raða liðum sem eru jöfn að vinningum og jöfn í innbyrðis viðureignum. (Sjá nánar í reglunum). Þetta þýðir að fjöldi unninna umferða eða skoraðra steina í leik skiptir engu máli varðandi röðun liða sem jöfn eru að vinningum. Það þýðir jafnframt að engu máli skiptir að lið klári endilega sex umferðir í leik sem er mjög ójafn. Liðum er að sjálfsögðu heimilt að hætta leik ef staðan er orðin vonlaus.
Önnur breyting sem rétt er að nefna er fyrirkomulag úrslitakeppninnar. Það verður nú fyrirkomulag sem er nákvæmlega eins og notað er á Evrópu- og Heimsmeistaramótum, svokallað "Page play-off" kerfi. Með því er meðal annars ætlunin að það sé einhver ávinningur af því að lenda frekar í 1. en 4. sæti deildarkeppninnar. Í úrslitakeppninni eigast fyrst við liðin í 1. og 2. sæti annars vegar og liðin í 3. og 4. sæti hins vegar. Sigurliðið í 1.-2. fer beint í úrslitaleikinn um gullið. Tapliðið úr 1.-2. leiknum fer í undanúrslitaleik. Sigurliðið úr leik 3.-4. fer í undanúrslitaleikinn en tapliðið fer beint í leik um bronsverðlaunin. Sigurliðið í undanúrslitaleiknum fer síðan í úrslitaleik um gullið en tapliðið fer í bronsleikinn. Í úrslitakeppninni fer val um hamarinn (síðasta stein) eftir árangri í deildarkeppninni og í leikjum úrslitakeppninnar (nánar í reglunum).
Reglurnar sjálfar þar sem þetta er útlistað er að finna í pdf-skjali hér. Þátttakendur eru hvattir til að kynna sér vel þessar breyttu reglur sem og almennar reglur krulluíþróttarinnar en þær er að finna á vef WCF hér.
Þáttökugjald er 7.000 kr./lið og greiðist í einu lagi við skráningu. Bankareikningur er 0302-26-006496, kt. 301050-2599. Einnig má greiða gjaldið beint til Ágústs Hilmarssonar, gjaldkera Krullunefndar. Eindagi greiðslu er 28. febrúar. Hafi lið ekki greitt þátttökugjald á eindaga er keppni þess þar með lokið og árangur þess strikast út úr keppninni. Jafnframt missa allir leikmenn liðsins þátttökurétt í næsta Íslandsmóti.