Karfan er tóm.
Á meðan menn frá RÚV mynduðu í óða önn á svellinu í kvöld - fyrir Landann að því er sögur herma - áttust við á svellinu tvö efstu lið Íslandsmótsins, Garpar og Mammútar. Með sigri má segja að Garpar hefðu getað komið að minnsta kosti einum fingri á bikarinn, en Mammútum var nauðsynlegt að sigra til að halda í við Garpa á lokasprettinum. Það tókst þeim, náðu góðri forystu í fyrri hluta leiksins og héldu henni nokkurn veginn, úrslitin 7-3 Mammútum í vil. Fífurnar unnu sinn annan sigur í lög þegar liðið lagði Fálka og Riddarar unnu loks leik eftir nokkra tapleiki í röð, sigruðu Skytturnar.
Garpar eru enn sem fyrr efstir, hafa unnið átta leiki en tapað einum. Mammútar hafa unnið sjö leiki en tapað einum og eiga eftir að leika einum leik meira en Garpar. Garpar sitja yfir í elleftu umferðinni og þá gætu Mammútar náð þeim ef þeir sigra Fífurnar. Garpar eiga eftir að leika gegn Fífunum, Skyttunum og Víkingum. Mammútar eiga eftir að leika gegn Fífunum, Skyttunum, Víkingum og Riddurum.
Keppni annarra liða, væntanlega um bronsið þótt sum þeirra eigi enn fræðilegan möguleika á að vinna silfrið, er ekki síður jöfn og spennandi. Þrátt fyrir tap í kvöld halda Skytturnar þriðja sætinum með fjóra vinninga, en Víkingar, Riddarar og Fálkar koma næstir með þrjá vinninga og þá Fífurnar með tvo vinninga.
Úrslit kvöldsins:
Skytturnar - Riddarar 2-5
Garpar - Mammútar 3-7
Fífurnar - Fálkar 5-3
Ekkert verður leikið miðvikudagskvöldið 9. mars en ellefta umferðin fer fram mánudagskvöldið 14. mars. Þá eigast við:
Braut 2: Mammútar - Fífurnar
Braut 4: Fálkar - Skytturnar
Braut 5: Riddarar - Víkingar
Ísumsjón: Fífurnar, Skytturnar, Víkingar.