Karfan er tóm.
Leikinn unnum við með 5 mörkum gegn 3 og mun þetta hafa verið okkar 5. sigurleikur í röð og því förum við í fríið á toppi deildarinnar. Næsti leikur verður ekki fyrr en 13. janúar þannig að við höfum nægan tíma til að mæta á okkur jólamör á næstu vikum.
Það verður að viðurkennast að fyrirfram reiknuðum við með heldur þægilegum leik og léttum þar sem margir af lykilmönnum Bjarnarins voru fjarri góðu gamni af hinum fjölbreytilegustu ástæðum. Annað kom þó á daginn og við þurftum að hafa fyrir sigrinum og t.a.m. skildi aðeins eitt mark liðin af um miðbik 3. lotu.
Fyrsta mark leiksins skoraði Björninn á 11. mínútu 1. lotu en þar var á ferðinni Biggi Hansen eftir sendingu frá Trausta Bergmann. Aðeins mínútu síðar jafnaði Sindri Már Björnsson leikinn fyrir SA með skrýtnu skoti sláin inn, en ekki urðu mörkin fleiri í lotunni.
Í 2. lotu hélt áfram að vera jafnræði meðliðunum þó vorum við heldur ágengari að markinu en Alexi Ala-Lathi átti stórleik og varði eins og berserkur hvert skotið á fætur öðru. Þó tókst okkur að setja tvö mörk, og þar var í bæði skiptin á ferðinni Jón Ingi Hallgrímsson og í öðru markinu naut hann aðstoðar Jóns Gíslasonar og Birkis Árnasonar. Björninn setti eitt mark í lotunni, Trausti Bergmann skoraði eftir sendingu frá engum öðrum en markverðinum Ala-Lathi. Staðan var því 3 – 2 eftir aðra lotu.
Á 6. mínútu 3. lotu skoraði Björn Már Jakobsson eftir sendingu frá Tomasi Fiala og jók muninn í 4 – 2, en náungi að nafni Einar Sveinn minnkaði muninn aftur í eitt mark fyrir Björninn skömmu síðar eftir sendingar frá Ásgeiri Atlasyni og Aroni Orrasyni og gott ef sá síðast nefndi er ekki í leikmaður 3. flokks.
Það var síðan Tomas Fiala með aðstoð Björns Más Jakobssonar sem innsiglaði sigurinn fyrir SA – lokastaðan 5 – 3. Óhætt er að segja að við höfum lent í basli með ungt Bjarnarliðið og mega þeir vera stoltir af sinni frammistöðu. Við hins vegar lönduðum sigri og þ.a.l. þremur stigum á leið okkar í úrslitakeppnina.
Villu vandræði okkar í 3. lotu voru næstum því búin að koma okkur í koll en á tímabili vorum við undirmannaðir 3 gegn 5 en sem betur fór tókst gestunum ekki að nýta sér liðsmuninn.
Leikurinn var í heildina prúðmannlega leikinn þó vissulega hafi hart verið barist. Kobezda hafði góða stjórn á leiknum og útbýttaði aðeins 2ja mínútna dómum og engum stærri dómum. Við fengum reyndar 10 slíka dóma á móti 5 Bjarnarmanna og áttum þá sjálfsagt skilið.
Það er svo gaman að segja frá því í lokin að Ágúst Ásgrímsson (eldri) spilaði í vörninni hjá SA að nýju eftir langt hlé en hann spilaði síðast með félaginu tímabilið 1998 – 1999. Þá tók hann sér nokkurra ára hlé en hefur svo spilað með Narfa síðustu tvö ár. Gústi Bóndi eins og hann er betur þekktur, var auð-þekktur á ísnum enda spilaði hann með fagur-rauðan jofa kúluhjálm án glers en slíkar gersemar hafa ekki sést á ísnum lengi.
Mörk og stoðsendingar
SA: Jón Ingi 2/0, Björn Már Jakobsson 1/1, Tomas Fiala 1/1, Sindri Már Björnsson 1/0, Birkir Árnason 0/1, Jón Gíslason 0/1
Björninn: Trausti Bergmann 1/1, Birgir Hansen 1/0, Ásgeir Atlason 0/1, Alexi Ala-Lathi 0/1, Aron Orrason 0/1, Einar Sveinn 0/1.
Myndin er af Jóni Inga Hallgrímssyni sem raðar inn mörkunum um þessar mundir. Myndina tók Margeir Örn Óskarsson