Karfan er tóm.
Heimsmeistaramót kvenna fer fram í Vernon þessa dagana og á meðan ein af umferðunum stóð yfir braust maður nokkur inn í hótelherbergi liðanna sem voru að keppa (vissi greinilega hver bjó hvar og hvaða lið voru að keppa í það skiptið). Afraksturinn var jafnvirði um tíu þúsund dala í ýmsum gjaldmiðlum að því er fram kemur í fréttum frá mótinu. Heimamenn í Vernon eru að sjálfsögðu yfir sig hneykslaðir á athæfi mannsins en þess má reyndar geta að hann hefur ekki náðst og ekki er vitað hvort hann er heimamaður í Vernon eða ekki. Engu að síður fannst íbúum í Vernon og mótshöldurum þetta mikil skömm fyrir heimabæ sinn og hafa opnað reikning og ætla að safna fé til að endurgreiða þeim liðum sem urðu fyrir barðinu á þjófnum. Þessi frétt er meðal annars hérna: http://www.news-videos.org/burglaries-against-womens-curling-teams/
Í leiðinni má geta þess að „stelpurnar okkar“, danska kvennaliðið frá Tårnby sem spilaði á Ice Cup í fyrra, endaði í fimmta sæti mótsins. Eftir keppni þar sem allir léku við alla voru þær dönsku jafnar þeim japönsku með sjö sigra og fjögur töp. Þar sem fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppni þurfti aukaleik til að skera úr um hvort liðið færi áfram og þann leik unnu þær japönsku. Litlu munaði reyndar að þær dönsku kæmust beint í fjögurra liða úrslitin án þess að þurfa að spila svokallaðan „tie-breaker“. Þær unnu meðal annars tvö af þeim liðum sem enduðu fyrir ofan þær, Sviss og Kanada. Leikurinn gegn Kanada var mjög góður en mögulegt er að horfa á þann leik (eins og alla leiki kanadíska liðsins) á vefsíðu TSN-sjónvarpsstöðvarinnar: http://broadband.tsn.ca/tsn/?sid=106&id=5268
Önnur athyglisverð frétt frá mótinu tengist skoska liðinu. Liðið vann aðeins einn af fyrstu sjö leikjum sínum. Þegar svo var komið ákvað þjálfarinn að breyta röðinni, skipta á öðrum og þriðja leikmanni. Þannig var uppröðunin í einum leik en í þeim næsta var ákveðið að fyrirliðinn, Gail Munro, myndi hvíla. Þá tilkynnti sú sem hafði leikið sem þriðji leikmaður (en hafði verið færð) að ef Munro myndi ekki leika þá myndi hún ekki heldur leika. Skoska liðið mætti því til leiks í þá leiki sem eftir voru með aðeins þrjá leikmenn. Þannig skipað tapaði liðið tveimur leikjum í viðbót en vann síðan tvo þá síðustu, reyndar gegn tveimur af neðstu liðunum, Ítalíu og Tékklandi. Fjallað er um þessa uppákomu, meðal annars hér: http://curlingtoday.blogspot.com/
Þegar þessi frétt er skrifuð stendur yfir leikur Sviss og Japans en sigurvegarinn fer í undanúrslitaleikinn. Á morgun leika tvö efstu liðin, Kanada og Kína. Sigurliðið fer beint í úrslitaleikinn en tapliðið leikur gegn annað hvort Sviss eða Japan í undanúrslitum, um réttinn til að leika úrslitaleikinn.