Tillaga að fjölgun titla

Nú er enn einu tímabili hjá meistaraflokki karla að ljúka, nánar tiltekið 19. tímabilinu þar sem keppt hefur verið á Íslandsmóti 3ja liða eða fleiri.  Fyrsta tímabilið var árið 1991 – 1992 þegar vélfrysta svellið í Laugadalnum komst í gagnið og Björninn hafði verið stofnaður.  Sá er þetta skrifar hefur spilað öll 19 tímabilin, nokkur þeirra standa uppúr sem mjög eftirminnileg en sannleikurinn er sá að flest renna þau saman eitt, hvert öðru líkara.


Öll tímabilin hefur keppnisfyrirkomulagið verið það sama, þ.e. tvö efstu lið að stigum eftir undankeppni halda áfram í úrslitakeppnina þar sem keppt er um Íslandsmeistaratitilinn.  Sá titill er það sem öll lið sækjast eftir, en aðeins eitt fær.  Jafnframt er þetta eini titillinn sem keppt er um, jafnvel þó talað sé um deildarmeistaratitilinn þá er hann aðeins eftirsóknarverður vegna heimaleikjaréttarins sem hann tryggir liðum.


Á næsta ári hefjum við 20. tímabilið og þá er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg og jafnvel stokka aðeins upp og breyta fyrirkomulaginu að einhverju leiti.  Að hafa aðeins um einn titil að keppa er of lítið, annað hvort vinnur lið eða ekki.  Þau lið sem vinna ekki Íslandsmeistaratitilinn geta ekki sýnt fram á neitt annað, líkt og ekkert hafi verið afrekar það árið.


Til þess að breyta þessu þarf að fjölga titlum svo liðin hafi um fleira að stefna að.   Íslandsmeistaratitillinn yrði eftir sem áður mikilvægasti titillinn en það væri auðveldlega hægt að bæta við þremur titlum til viðbótar.  Til að byrja með mætti gera meira úr deildarbikarnum, líkt og aðrar íþróttagreinar gera.  Þar þarf ekki annað en að kaupa bikar og medalíur og gera meira úr því sem þegar er til staðar.  Síðan mætti hafa bikarmót í upphafi tímabils, ekki ósvipað því sem Aseta mótið var á sínum tíma.  Það mætti jafnvel breyta því, láta það ná yfir tvær helgar eða þrjár og kalla það bikarmót ÍHÍ.  Sigurvegarar á því móti yrðu bikarmeistarar.  Svo mætti gera meira úr Bæjarkeppninni og hafa þá keppni t.d. í lok tímabils.  Þá þyrftu sunnanliðin að sameinast í eitt sterkt lið og keppa við Akureyri í baráttu bæjanna.  Þetta er þó ekkert heilagt form á Bæjarkeppni, Reykavíkurliðin gætu t.d. fyrst keppt innbyrðis um það hvort liðið keppti fyrir hönd Reykjavíkur ár hvert.


Þetta krefst í sjálfu sér ekki mikilla breytinga, en þarna er strax að fjórum titlum að keppa,  þ.e. bikarkeppni, deildarkeppni, Íslandsmeistaratitli og bæjarkeppni.  Lið sem ekki vinnur sjálfan Íslandsmeistarartitilinn en landar kannski deildarbikar og bikarkeppni, hefur eitthvað til að sýna fram á í lok tímabils.  Lið eru oft að gera góða hluti á tímabili, en ná kannski ekki að klára akkúrat þennan eina titil.  Þetta myndi án efa hleypa meira lífi í hvert tímabil og gera þau eftirminnilegri.
Þetta á jafnt við um karla og kvennaflokka og mætti jafnvel teygja alveg niður í 3.flokk – því eitt er víst að það er aldrei of mikið af verðlaunum og viðurkenningum fyrir góðan árangur.