4. flokkur á leið á Iceland Ice Hockey Cup

Frá Bautamótinu 2013. Mynd: Ásgrímur Ágústsson.
Frá Bautamótinu 2013. Mynd: Ásgrímur Ágústsson.


Núna í vikunni halda hokkíkrakkar í 4. flokki suður til Reykjavíkur til þátttöku í helgarmóti á vegum Bjarnarins í Egilshöllinni. Mótið er að hluta liður í Íslandsmótinu í 4. flokki, en eins og áður hefur komið fram hér á sasport hafa bæði A- og B-lið 4. flokks Skautafélags Akureyrar haft mikla yfirburði í vetur og hefur SA þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Tvö finnsk lið taka þátt í mótinu og eitt A-lið frá hverju íslensku félaganna, SA, SR og Birninum. Auk þess mæta SA og Björninn til leiks með B-lið sem munu mætast. Erlendu liðin og íslensku A-liðin þrjú mætast og síðan leika fjögur efstu í undanúrslitum (1v4 og 2v3) þar sem sigurliðin leika síðan til úrslita á mótinu. Það lið sem endar í fimmta sæti mun svo mæta sameinuðu B-liði SA og Bjarnarins, sem þá heitir Cougars Iceland.

Mótið hefst reyndar í kvöld, þriðjudagskvöld, með leik Bjarnarins og SR. Áfram verður haldið síðdegis á fimmtudag, en fyrsti leikur SA er gegn Birninum kl. 19.30 á fimmtudag. Lokaleikurinn hefst kl. 12.30 á sunnudag.

Leikjadagskráin.

Upplýsingar um ferðina sjálfa, ferðatilhögun, kostnað og annað hafa nú þegar borist foreldrum í tölvupóstum frá Foreldrafélaginu.