Karfan er tóm.
Fyrri hluti janúarmánaðar verður helgaður kvennastarfi hjá Krulludeild SA, með sérstakri áherslu á að fá fleiri konur til að prófa og keppa í krullu.
Átakið „Á svellið stelpur!“ stendur í hálfan mánuð, frá 3.-17. janúar (hugsanlega til 22. janúar) og er opið öllum konum sem vilja koma og prófa, fá leiðbeiningar frá vönum leikmönnum og taka þátt í stuttu móti.
Þær konur sem „falla“ fyrir íþróttinni geta svo auðveldlega haldið áfram að mæta á æfingar og stefnt beint á næsta mót, Íslandsmótið í krullu 2011, sem væntanlega hefst í lok janúar eða byrjun febrúar. Rétt er að vekja athygli á því að einhver af liðunum sem nú þegar spila krullu að staðaldri vantar nýja liðsmenn til að fylla í skörð brottfluttra. Einnig er að sjálfsögðu hægt að halda áfram æfingum þótt ekki sé farið beint í næsta mót.
Ætlunin er að bjóða upp á opna kvennatíma í fyrstu viku janúar - mánudagskvöldið 3. janúar kl. 20 og miðvikudagskvöldið 5. janúar kl. 21. Í framhaldi af því er síðan hugmyndin að halda stutt mót fyrir þær konur sem koma í opnu tímana. Skipulag og lengd mótsins fer auðvitað eftir þátttöku.
Krulludeildin óskar eftir liðsinni krullufólks við að breiða út boðskapinn. Krullufólk er hvatt til að koma þessum upplýsingum á framfæri við vinkonur, til dæmis í gegnum Facebook þar sem stofnaður hefur verið "viðburður".
Til gamans hefur fréttaritari einnig tekið saman nokkrar myndir af konum í krullu hér á Akureyri á undanförnum árum - sjá myndasafn í pdf-skjali hér - svona rétt ef einhverjir skyldu ekki trúa því að krulla sé íþrótt jafnt fyrir konur karla.
Opnaður hefur verið sérstakur upplýsingavefur - http://konurkrulla.blogspot.com - til að vekja athygli á átakinu og koma upplýsingum og fróðleik á framfæri.
Krullufólk er hvatt til að bjóða sem flestum vinkonum sínum að koma og prófa.