Karfan er tóm.
Þau tíðindi urðu á aðalfundi Skautafélagsins í kvöld að Þórdís Ingvadóttir var kjörin formaður aðalstjórnar og er hún fyrsta konan sem kjörin er í það embætti.
Aðalfundur Skautafélags Akureyrar var haldinn í Skautahöllinni í kvöld. Óvenju fjölmennt var á fundinum, um fjörutíu manns þegar flest var. Hallgrímur Ingólfsson, starfandi formaður SA minntist í upphafi fundar Magnúsar Einars Finnssonar, fyrrverandi formanns SA sem lést fyrr á þessu ári. Í hinum sanna Skautafélagsanda sem Magnús starfaði eftir risu fundargestir úr sætum og hrópuðu: Áfram SA!
Fundurinn fór að mestu fram með hefðbundnum hætti, formenn og gjaldkerar deilda félagsins sem og formaður og gjaldkeri aðalstjórnar fluttu skýrslur um starfsemi og fjármál liðins árs. Þegar kom að því að kjósa í stjórn Skautafélagsins komu fram tvö framboð til formanns og fór fram skrifleg kosning milli Sigurðar Sveins Sigurðssonar og Þórdísar Ingvadóttur. Þórdís var kjörinn formaður með 20 atkvæðum en Sigurður fékk 16 atkvæði. Þar með var brotið blað í sögu félagsins því Þórdís er fyrsta konan sem kjörin er sem formaður í tæplega sjötíu ára sögu þess. Þórdísi eru hér með færðar hamingjuóskir og henni óskað alls góðs sem formaður SA. Í stjórnina voru einnig kjörin þau Hilmar Brynjólfsson, Helga Margrét Clarke, Jón Grétar Rögnvaldsson, Jón Björnsson, Sigurgeir Haraldsson og Jón Hansen.
Ein breyting varð á stjórn Krulludeildar, Ágúst Hilmarsson varaformaður fór úr stjórn en inn í stjórnina kemur Ólafur Hreinsson. Í stjórn deildarinnar eru: Gísli Kristinsson formaður, Hallgrímur Valsson varaformaður, Ásgrímur Ágústsson, Davíð Valsson, Einar Jóhannsson, Jón Hansen og Ólafur Hreinsson.
Rekstur Skautafélagsins var með hefðbundnum hætti á árinu. Tekjur félagsins voru tæplega 15,7 milljónir króna á árinu 2004 en voru 12,7 milljónir árið áður. Gjöld á árinu 2004 voru tæpar 15,5 milljónir en voru 12,4 milljónir árið áður. Félagið var rekið með 211.398 króna hagnaði. Skuldastaða þess batnaði örlítið frá árinu á undan þegar á heildina er litið. Skammtímaskuldir hækkuðu að vísu nokkuð en langtímaskuldir lækkuðu á móti. Heildarskuldir í árslok 2004 voru tæpar 4,9 milljónir króna en voru tæpar 5,1 milljón króna ári áður.
Rekstur einstakra deilda gekk nokkuð vel. Tekjur Krulludeildar voru 690.000 krónur, gjöldin 346.000 krónur og hagnaður því 343.000 krónur. Skuldir deildarinnar eru nánast engar. Tekjur Listhlaupsdeildar urðu 4.843.154 krónur og gjöldin 4.775.004 krónur þannig að hagnaður deildarinnar verð 68.150 krónur. Skuldir Listhlaupsdeildar eru tæpar 20 þúsund krónur. Tekjur hokkídeildar urðu tæplega 4,2 milljónir, gjöldin ríflega 4,3 milljónir og rekstrartap 158.000 krónur. Skuldir hokkídeildar voru tæplega 600 þúsund krónur um áramót.