Æfingar fara ekki af stað 23. mars eins og vonast var til

Þær æfingar sem fyrirhugaðar voru í næstu viku munu ekki ná fram að ganga eins og vonast var eftir. Hér að neðan er yfirlýsing frá ÍSÍ.

"Með ákvörðun heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi og samkomum var fyrst og fremst komið á tilteknum viðmiðum í þágu opinberra sóttvarna en nánari útfærsla falin menntamálayfirvöldum í tilviki skólastarfs eða viðkomandi rekstraraðilum eða skipuleggjendum í tilviki takmarkana á samkomur. Eftir samráð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og mennta- og menningarmálaráðuneytisins síðastliðna viku hefur komið í ljós að framkvæmd þessara ráðstafana hefur reynst flókin.

Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur. Eru skipuleggjendur þess hvattir til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á."