Karfan er tóm.
Skautafélag Akureyrar hélt upp á 70 ára afmæli sitt laugardaginn 13. janúar síðastliðinn en það var stofnað 1. janúar 1937. Í tilefni af því
var boðið til athafnar í Skautahöllinni þar sem því var jafnframt fagnað að félagið fékk viðurkenningu frá ÍSÍ sem fyrirmyndarfélag en Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ kom og afhenti félaginu viðurkenningarplagg og fyrirmyndarfélagsfánann . Næst tók til máls Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og einnig fluttu Þórarinn B. Jónsson stjórnarformaður VMÍ og Þröstur Guðjónsson formaður ÍBA ávörp. Við athöfnina fengu þrír félagsmenn viðurkenningu og voru gerðir að heiðursfélögum en það voru þau Björn Baldursson, Edda Indriðadóttir og Ásgrímur Ágústsson. Björn og Edda eiga ennþá Íslandsmet í hraðhlaupi á skautum í 500, 1000, 1500 og 3000m lengdum, flest sett á árunum 1950-54.Þriðji heiðursfélaginn Ásgrímur Ágústsson hefur verið einnig í hraðhlaupi frá unga aldri en hefur nú skipt yfir í krullu og situr nú í stjórn krulludeildar. Einnig hefur hann verið duglegur að mæta á viðburði hjá Skautafélaginu um langt skeið og er það honum að þakka að saga félagsins er á myndum í eins ríku mæli og raunin er. Iðkendur listhlaupadeildar sýndu listir sínar og félagar í krulludeild fengu fjölda barna og fullorðinna fékk að prófa krulluna, þeirra á meðal Ólafur Rafnsson, forseta ÍSÍ. Verðlaunaskápar hafa verið settir upp í Skautahöllinni og helstu gripum raðað í þá og eru flestir sammála um að vel hafi tekist til með þá. Þá var hokkímót 4. flokks í íshokkí í gangi alla helgina þar sem komu lið frá bæði Birninum og SR. Þar unnu okkar strákar alla sína leiki og eru efstir á Íslandsmótinu í sínum flokki. Um kvöldið var leikur í meistaraflokki á milli SA og SR en þar töpuðu okkar menn 4:6 fyrir gestunum.