Akureyrarmótið í krullu - 2. umferð

Þrjú lið hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum þó einni umferð sé lokið í riðlakeppninni.

Önnur umferð Akureyrarmótsins var leikin í gærkvöldi og náðu Fífurnar, Garpar og Víkingar að tryggja sér sæti í undanúrslitum þó svo ein umferð sé enn eftir í riðlakeppninni. Þessi lið hafa öll unnið báða leikina sína. Í B-riðlinum eru það Skytturnar og Üllevål sem munu berjast um sæti í undanúrslitum í lokaumferð riðlakeppninnar.

Garpar og Víkingar eru öruggir áfram úr A-riðlinum, hafa unnið báða leiki sína til þessa, en Svarta gengið og Riddarar eru án sigurs og berjast því um þriðja og fjórða sæti riðilsins í lokaumferð riðlakeppninnar. Garpar og Víkingar eigast við í lokaumferðinni og berjast þar um efsta sæti riðilsins.

Fífurnar hafa unnið báða leiki sína í B-riðlinum og eru búnar að tryggja sér sæti í undanúrslitum en Mammútar eru þar úr leik eftir tap í tveimur fyrstu leikjum sínum. Fífurnar hafa reyndar tryggt sér efsta sæti í riðlinum því þótt liðið myndi tapa í lokaumferðinni er staðan engu að síður sú að Fífurnar myndu ná efsta sætinu hvort sem Skytturnar eða Üllevål kemst upp að hlið þeirra - vegna sigurs gegn báðum þessum liðum. Skytturnar og Üllevål leika í lokaumferð riðlakeppninnar og fer sigurvegari úr þeirri viðureign í undanúrslit en tapliðið lendir þá í þriðja sæti riðilsins. Mammútar eru "öruggir" í neðsta sæti riðilsins jafnvel þótt þeir myndu vinna lokaleikinn því þeir geta aðeins náð annað hvort Skyttunum eða Üllevål og myndu þá raðast neðar en þau vegna úrslita í innbyrðis viðureign.

Úrslit 2. umferðar:

A-riðill
Svarta gengið - Víkingar  5-6
Garpar - Riddarar  10-4

B-riðill
Fífurnar - Üllevål  6-1
Skytturnar - Mammútar  7-3

Lokaumfeðr riðlakeppninnar verður mánudagskvöldið 12. október en þá leika:

A-riðill, braut 2: Riddarar - Svarta gengið
A-riðill, braut 3: Víkingar - Garpar

B-riðill, braut 4: Mammútar - Fífurnar
B-riðill, braut 5: Üllevål - Skytturnar

Mánudagskvöldið 19. október fara fram undanúrslit og leikir um 5.-8. sæti og mánudagskvöldið 26. október verða úrslitaleikir um verðlaunasætin. 

Sjá öll úrslit og leikjadagskrá í excel-skjali hér.