Áramótamótið: C-níin sigruðu

Fjölmenni á Áramótamótinu í krullu.
Fjölmenni á Áramótamótinu í krullu.


Metþátttaka var í mótinu, en alls tóku 10 lið þátt með rúmlega fjörutíu manns innanborðs. Skemmtilega óvænt viðbót kom frá höfuðborgarsvæðinu, um 10-15 manns sem höfðu ætlað að fara á skíði fyrr um daginn en orðið frá að hverfa því fjallið var lokað vegna veðurs. Í staðinn mætti fólkið í almenningstímann á sunnudeginum og svo krullumót um kvöldið.

Hvert lið lék fjóra leiki og að lokum stóðu tvö lið uppi jöfn með sex stig af átta mögulegum, en annað þeirra, lið sem kallaði sig C-níin, hlaut sigurlaunin þar sem liðið vann fleiri umferðir en liðið Hliðarhallar. Sigurlið mótsins skipuðu þau Hallgrímur Valsson, Rúnar Steingrímsson, Ingólfur Helgason, Heiða Jónsdóttir og Sigurður Steindórsson (sjá mynd - smellið á myndina hér að ofan til að fara inn í myndasafn með fleiri myndum frá mótinu).

Að mótinu loknu fór síðan fram skotkeppni þar sem hver keppandi sendi einn stein og var keppt um að hitta sem næst miðju hrings á hinum enda brautarinnar. Keppendum var skipt niður í vana og óvana, en tvær óvanar höfuðborgarkrullur skutu hinum vönu ref fyrir rass. Það var Kristín Rut Kjartansdóttir sem sigraði í flokki hinna óvönu, en Kristján Sævar Þorkelsson var bestur þeirra vönu. Steinn Kristínar endaði nær miðjunni en steinn Kristjáns þrátt fyrir mismikla reynslu þessara tveggja.

Kiss og jólasveinn?


Þrír ættliðir í beinan karllegg í sama liðinu og allir með millinafnið "Haukur"
Arnar Haukur Rúnarsson, Rúnar Haukur Gunnarsson og Gunnar Haukur Jóhannesson.