Ásynjur enn ósigraðar, Guðrún Blöndal með fjögur

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (03.09.2011)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (03.09.2011)


Ásynjur unnu fimm marka sigur á Birninum í Egilshöll í gær. Guðrún Kristín Blöndal skoraði fjögur mörk. Ásynjur tróna enn á toppi deildarinnar, ósigraðar.

Ásynjur komust tveimur mörkum yfir strax í fyrsta leikhluta og héldu tökum sínum á leiknum það sem eftir var. Þegar upp var staðið var munurinn þó heldur minni en í fyrri leikjum liðanna á þessu tímabili, meðal annars fyrir góða markvörslu hjá Birninum. Úrslit: Björninn - Ásynjur 1-6.

En Ásynjur áttu þó ekki toppleik og bar leikurinn þess kannski helst merki að jólafrýið er nýafstaðið og Ásynjur ekki eins ferskar og oft áður. En sigurinn var þó aldrei í hættu og vandséð að Ásynjur eigi eftir að tapa leik í vetur, nema þá helst gegn þeim yngri úr SA, Ynjunum, en SA-liðin mætast næst þriðjudaginn 15. janúar. Yfirburðir SA-liðanna hafa verið miklir í vetur og er það raunar áhyggjuefni eins og áður hefur komið fram í umfjöllun um leiki þeirra gegn sunnanliðunum.

Guðrún Kristín Blöndal fór mikinn í liði Ásynja, skoraði fjögur mörk. Fyrr í dag sögðum við frá því að Víkingar sigruðu Björninn með einu marki sem eiginmaður hennar, Sigurður Sveinn Sigurðsson, skoraði. Það má því kannski orða leikina tvo með því að segja að hjónin í Naustafjörunni hafi afgreitt Björninn. Þrettán kemur dálítið við sögu hér, því árið 2013 hófst með því að leikmaður nr. 13 skoraði fjögur mörk fyrir Ásynjur gegn Birninum og leikmaður nr. 13 skoraði eina mark Víkinga gegn Birninum. Fréttaritari þekkir ekki til kínverska dagatalsins, en vonandi verður þetta ekki ár Bjarnarins.

Heimild um mörk og stoðsendingar - mbl.is

Mörk/stoðsendingar
Björninn
Lilja María Sigfúsdóttir 1/0
Steinunn Erla Sigurgeirsdóttir 0/1
Refsingar Björninn: 10 mínútur

Ásynjur
Guðrún Kristín Blöndal 4/0
Anna Sonja Ágústsdóttir 0/2
Birna Baldursdóttir 1/0
Sólveig Gærdbo Smáradóttir 1/0
Diljá Sif Björgvinsdóttir 0/1
Védís Áslaug Beck Valdemarsdóttir 0/1
Jónína M. Guðbjartsdóttir 0/1
Linda Brá Sveinsdóttir 0/1
Elísabet Kristjándsóttir 0/1
Katrín Ryan 0/1
Refsingar Ásynjur: 8 mínútur.