Karfan er tóm.
Um síðustu helgi var Bikarmót U16 stúlkna haldið í Skautahöllinni á Akureyri. Undanfarin þrjú vor hafa þessir aldursflokkar þ.e. U16 og U14 komið saman eina helgi og verið við sameiginlegar æfingar, hópefli, fengið fjölbreytta fræðslu og spilað leiki en það er einna helst það sem stelpum í þessum aldursflokkum vantar, að spila fleiri leiki gegn stelpum. Ástæða þótti því til að bæta við einni helgi til að efla og styrkja stelpurnar enn frekar á ísnum en það er mikill munur að spila í blönduðu liði eða einungis með stelpum. Þannig kom það til að þessi helgi á miðju tímabili var valin og spilað einfalt bikarmót og nú fyrir norðan í fyrsta sinn.
Það var líf og fjör í höllinni en dagskrá helgarinnar hófst með hressingu og fyrirlestri frá Silvíu Rán Björgvinsdóttur sem hefur náð einna lengst íslenskra hokkíkvenna á sínum ferli og er öflug fyrirmynd ungra leikmanna. Silvía sagði frá vegferð sinni í máli og myndum, þó sigrarnir séu margir hjá henni þá eru einnig töp og meiðsli sem hún hefur þurft að glíma við en hún hefur líka haft skýr markmið og náð þeim með þrautseigju og aga og uppskorið ýmis verðlaun á mótum víðsvegar um heiminn. Óhætt er að segja að Silvía hafi fangaði athygli stelpnanna með máli sínu enda styttist í að einhverjar þeirra muni freisti hokkí gæfunnar erlendis.
Hver klúbbur tefldi fram einu liði en SA lánaðaði Fjölni fáeina leikmenn svo yrði fullskipað lið, liðin léku svo eina umferð á laugardeginum og aðra á sunnudeginum.
Yngri stelpurnar okkar i SA, framtíðar stjörnurnar í U12 og U10 fengu líka sitt pláss á ísnum og spiluðu stuttan æfingaleik sín á milli.
SR stóð uppi sem sigurvegari mótsins en aðeins eitt mark skildi á milli í innbyrðis leikjum SR og SA svo SA varð í öðru sæti og Fjölnir í þriðja. Þetta voru hörku spennandi leikir sem gaman var að horfa á og alveg ljóst að framtíðin er björt. Besti leikmaður liðs var valinn eftir hvern leik og fékk viðurkenningu að launum myndirnar meðfylgjandi myndir segja svo enn betur frá:
Í fyrsta leik mótsins hlutu Ragnheiður Alís Ragnarsdóttir úr SA og Ylfa Bjarnadóttir úr SR mvp verðlaun.
Silvía Mörk Kristinsdóttir nr 22 úr SA og Sofía Sara Bjarnadóttir nr 29 úr Fjölni hlutu mvp verðlaun eftir annan leik mótsins.
Eftir þriðja leik á laugardeginum hlutu Þóra Milla Grossa Sigurðardóttir nr 24 úr SR og Berglind Huld Ríkarðsdóttir nr 13 úr Fjölni mvp verðlaun
Eftir fyrsta leik sunnudagsins hlutu þær Lilja Björk Einisdóttir nr 25 úr SA og Bríet Friðjónsdóttir nr 19 úr SR mvp verðlaun
Helga Tryggvadóttir nr 30 úr Fjölni og Friðrika Magnúsdóttir nr 43 úr SR hlutu mvp verðlaun eftir annan leik sunnudagsins.
Eftir lokaleik mótsins hlutu Aníta Júlíana Benjamínsdóttir nr 6 úr SA og Stefanía Ósk Elísabethardóttir nr 9 úr Fjölni mvp verðlaunin.
Eftir Future star leikinn þar sem stelpur úr U10 og U12 liðum Skautafélags Akureyrar léku spenandi leik voru að sjálfsögðu einnig veitt mvp verðlaun, það voru þær Viktoría Rós Guseva nr 8 úr appelsínugulum og Aþena Elínrós Guðlaugsdóttir nr 12 úr grænum sem hrepptu hnossið
SR varð í fyrsta sæti mótsins en aðeins eitt stig skildi að í innbyrðis viðureign við SA um fyrsta sætið.
SA stelpurnar urðu að sætta sig við annað sætið.
Fjölnisstelpur mættu galvaskar til leiks, stóðu sig frábærlega og enduðu í þriðja sæti.
Þó Fjölnir næði ekki að mæta með fullmannað lið að þessu sinni fylltist fljótt í plássin sem upp á vantaði. Það er nóg af stelpum sem þyrstir í meira hokkí og helgar sem þessar voru ekki síst hugsaðar fyrir samtöðu félaganna í þróun kvennahokkísins rétt eins og hvers og eins leikmanns á ísnum.